Formennska í sjávarútvegsnefnd

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 13:48:09 (1854)

1998-12-09 13:48:09# 123. lþ. 36.91 fundur 151#B formennska í sjávarútvegsnefnd# (aths. um störf þingsins), KHG
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[13:48]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil bara árétta það vegna þess að það er varaformaður þingflokks jafnaðarmanna sem hefur umræðuna að þingflokkur jafnaðarmanna er ekki aðili að málinu. Hann hefur allt það sem um var samið og engu hefur verið breytt í þeim efnum.

Eina markmið þingflokks jafnaðarmanna með umræðunni hlýtur að vera að koma formanni heilbr.- og trn. frá, hann fái úr röðum sínum formann í sjútvn. og setji af formann heilbr.- og trn. sem er úr þingflokki jafnaðarmanna. Enginn annar sjáanlegur tilgangur er með umræðunni nema henni sé beint pólitískt að mér sem ég skil ósköp vel.

Ég vil svo segja vegna kvartana um að skort hafi á tækifæri á að taka fyrir í sjútvn. dóm Hæstaréttar, þá er hann býsna flókinn sá dómur (BH: Nei, hann er það ekki.) og það er ekki svo að menn eigi að flýta sér mjög að fara að lesa og fjalla um hann á fundum, menn hafa gott af því að gefa sér tíma til að skoða það mál. Það gerist ekkert frá föstudegi til þriðjudags, hv. þingmenn, vil ég leyfa mér að segja.

Af því að menn hafa ítrekað úr ræðustóli gert athugasemdir við að ekki var kallaður sérstakur fundur saman í sjútvn. af þessu tilefni vil ég minna á að það var fundur ákveðinn og boðaður í sjútvn. sl. laugardag. Fundarboð hafði verið sent út og fundinn varð að afboða, það varð að aflýsa honum vegna þess að fulltrúar þingflokks jafnaðarmanna í sjútvn. höfðu ákveðið að gera eitthvað annað í tíma sínum en að vera í vinnunni.