Formennska í sjávarútvegsnefnd

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 13:50:11 (1855)

1998-12-09 13:50:11# 123. lþ. 36.91 fundur 151#B formennska í sjávarútvegsnefnd# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[13:50]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki fyrst og síðast að ræða formennsku í sjútvn. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson verður að eiga það við samvisku sína hvort honum finnist eðlilegt að sitja þar og það verður þá að vera ákvörðunarefni ríkisstjórnarinnar líka hvort hún telji ástæðu til þess að rjúfa þann frið sem settur var á með þessu samkomulagi.

Hins vegar vil ég nefna annað atriði til sögunnar og halda því mjög ákveðið til haga og það á ekki við persónuna Kristin H. Gunnarsson. Hann hefur kallað eftir því opinberlega hvort einhver geri við það athugasemdir að hann sitji í nefndum og ráðum innan og utan þings í krafti stjórnarandstöðunnar og þar kem ég að kjarna málsins sem hv. þm. skilur augljóslega ekki.

Ég vil rifja það upp að fyrir hvert haust er kosin listakosning, hlutfallskosning og tveir listar eru í kjöri, A- og B-listi, A-listi stjórnar, B-listi stjórnarandstöðu, þannig að hv. þm. eins og aðrir þingmenn stjórnarandstöðu nýtur þeirra þingmanna sem eru í stjórnarandstöðu og kemur af lista stjórnarandstöðu. Það er grundvallaratriði.

Ég vil í því sambandi nefna að það er alger misskilningur sem hv. þm. hefur haldið fram opinberlega í fjölmiðlum að seta hans í Byggðastofnun sé ákvörðunarefni Alþingis. Það er nákvæmlega sama viðhorf sem er uppi þar. Hann kemur í krafti stjórnarandstöðunnar. Það er bara þannig.

Nákvæmlega sama gildir um setu hans í sérstaklega skipaðri nefnd dómsmrh. þar sem hann situr fyrir hönd Alþb. þannig að allt ber að sama brunni og ég ætla að árétta það og undirstrika að hv. þm., framsóknarmaðurinn Kristinn H. Gunnarsson, er ekki í mínu umboði sem stjórnarandstæðings í þessum nefndum og þessum trúnaðarstörfum. Það er hann ekki. Þá hefur hann fengið því svarað sem hann bað um í fjölmiðlum fyrir helgi eða núna rétt eftir helgina. Það skal vera algerlega skýrt. Nú er hann kominn hinum megin við girðinguna og þar skal hann vera. Það er mér að meinalausu en í umboði mínu er hann ekki.