Formennska stjórnarandstöðu í nefndum

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 13:52:55 (1856)

1998-12-09 13:52:55# 123. lþ. 36.93 fundur 153#B formennska stjórnarandstöðu í nefndum# (um fundarstjórn), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[13:52]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég tel rétt að vekja athygli hæstv. forseta á því að í umræðunni áðan sem snerti störf forseta, kom fram ákveðinn misskilningur sem brýnt er að leiðrétta gagnvart forseta þannig að menn velkist ekki í neinum vafa um það. Þar á ég við ummæli hæstv. forsrh. um formennsku í sjútvn. Svo það sé algjörlega ljóst þá á Alþb. ekki lengur fulltrúa í sjútvn. og það var hluti af þeim samningum sem voru gerðir milli stjórnar og stjórnarandstöðu í haust hvernig sætum var skipt. Steingrímur J. Sigfússon, sem hafði gegnt þessu embætti, var genginn í annan þingflokk. Þá var þegar annar úr þeim þingflokki formaður, hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir. Það gat ekki gengið og var ekki hluti af samkomulagi að það væru tveir þingmenn í þingflokki óháðra formenn í þingnefndum. Þannig lá í málinu að ekki kom til álita varðandi hv. þm. Steingrím J. Sigfússon að hann yrði formaður í sjútvn. vegna þess að hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir --- og um það var ekki ágreiningur --- yrði áfram formaður í félmn.

Hins vegar kom vitaskuld þriðja formannssæti í hlut Alþb. því að sæti þingflokks jafnaðarmanna var hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Þá fékk hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson þetta formennskusæti. Það er ástæðan og það er það sem við erum að gera hér ágreining um. Ég tók mjög skýrt fram að þetta snýr ekki að persónunni Kristni H. Gunnarssyni. Hann er hluti af samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu, situr sem formaður nefndarinnar, upprunalega kjörinn sem fulltrúi Alþb. Hann er ekki einu sinni lengur í stjórnarandstöðunni því að við höfum upplifað þetta áður, þegar hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir gekk úr þingflokki Kvennalistans og varð óháð sat hún samt áfram sem formaður félmn. Hún var hluti af stjórnarandstöðunni.

Við skulum fara formlega alveg rétt með þessa hluti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur fullan rétt til þess að fara í annan þingflokk en þá verður að taka upp trúnaðarstöður hans þar sem hann situr sem fulltrúi stjórnarandstöðunnar. Það er einfalt mál og það er sanngirnismál. Við höfum farið þess á leit við forseta að þessi mál verði rædd á þingflokksformannafundi. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson getur hvorki í þessu starfi né öðrum talist fulltrúi stjórnarandstöðunnar. Hann getur vitaskuld setið áfram í öllum þessum störfum sem fulltrúi stjórnarliða, ef um það semst. Ekki er tímabært að svara þeirri spurningu. En það þarf að vera alveg ljóst, herra forseti, og þess vegna geri ég þessa athugasemd að hæstv. forseta séu efnisatriði þessa máls alveg ljós.