Framhald umræðu um gagnagrunn á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 13:58:36 (1860)

1998-12-09 13:58:36# 123. lþ. 36.95 fundur 155#B framhald umræðu um gagnagrunn á heilbrigðissviði# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[13:58]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Við höfum rætt flókið mál, frv. til laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði, í einn dag. Það liggur fyrir að framhald umræðunnar verður í dag og e.t.v. ... (Gripið fram í: Tvo daga.) tvo daga. Ég er farinn að ruglast í þessu sökum svefnleysis sem hrjáir mig af völdum málsins. En fjöldi þingmanna hefur flutt ræður, málið er flókið og í ljós hefur komið að jafnvel þingmenn í stjórnarliðinu sem hafa kafað ofan í málið hafa misskilið lykilatriði í frv.

Í umræðunni hafa menn varpað fram fjölda spurninga og þess vegna vildi ég, herra forseti, vekja máls á því að það yrði mjög til þess að greiða fyrir afgreiðslu málsins og greiða fyrir umræðunni ef það birti til hjá stjórnarliðinu og menn tækju til við að svara þeim spurningum sem fram hafa komið. Ég varpaði fram nokkrum spurningum til hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, talsmanns meiri hluta heilbr.- og trn. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, Ágúst Einarsson og reyndar fleiri gerðu það og ég held að það sé mál til komið að hv. frsm. meiri hlutans komi hingað í þennan stól og greiði fyrir umræðunni með því að svara þeim spurningum sem til hennar hefur verið varpað.

Ég tek eftir því að þeir sem þegar hafa talað í umræðunni eru byrjaðir að setja sig á mælendaskrá aftur vegna þess að þeir hafa ekki fengið svör við fyrirspurnum sem sumar hafa verið ítrekaðar. Þess vegna, herra forseti, beini ég því til forseta að hlutast til um að talsmenn meiri hlutans í þessu máli svari þeim spurningum sem fram hafa komið til þess að umræðan mætti skemmast og verða greiðari.