Framhald umræðu um gagnagrunn á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 14:00:47 (1861)

1998-12-09 14:00:47# 123. lþ. 36.95 fundur 155#B framhald umræðu um gagnagrunn á heilbrigðissviði# (um fundarstjórn), BH
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[14:00]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður heilbr.- og trn., benti á að þeim spurningum sem varpað hefur verið til framsögumanns meiri hluta heilbr.- og trn. í gagnagrunnsmálinu verði svarað. Ég ásamt fjölmörgum öðrum velti upp mörgum spurningum í umræðunni. Það var mjög greinilegt, sérstaklega eftir að hv. þm. Tómas Ingi Olrich sem verið hefur talsmaður meiri hlutans í þessu máli talaði, að margt var á reiki um mikilvæg mál. Það voru mál eins og t.d. hvort erfðafræðiupplýsingar væru t.d. inni í grunninum. Frá meiri hlutanum hafa komið misvísandi skilaboð hvað þetta varðar. Ég á sjálf eftir að tala í annað sinn og geri ráð fyrir að það verði í dag en ég tel nauðsynlegt að áður en það gerist verði greitt úr fjölda spurninga sem lagðar hafa verið fyrir framsögumann meiri hlutans. Ég geri þá kröfu, herra forseti, að framsögumaður meiri hluta svari þessum spurningum svo a.m.k. verði hægt að greiða fyrir áframhaldandi umræðu um málið. Ég tel það nauðsynlegt.

(Forseti (GÁ): Forseti hefur ekkert um þetta að segja annað en að hann leggur til að öllum þeim spurningum sem hægt er að svara verði svarað.)