Framhald umræðu um gagnagrunn á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 14:03:37 (1863)

1998-12-09 14:03:37# 123. lþ. 36.95 fundur 155#B framhald umræðu um gagnagrunn á heilbrigðissviði# (um fundarstjórn), SF
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[14:03]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Vegna þeirra orða sem fram hafa komið frá síðustu ræðumönnum vil ég upplýsa að sjálfsagt er að svara þeim spurningum sem hér hafa fram komið. Ég hef reynt að taka þær skilmerkilega niður og hafði hugsað mér að svara þeim hér síðar í ræðu.

Það kom fram hjá formanni heilbr.- og trn., Össuri Skarphéðinssyni, að hann teldi rétt að taka tvö atriði út úr frv. og þá gæti hann fyrir sitt leyti samþykkt það. Þar átti hv. þm. Össur Skarphéðinsson við einkaréttinn og aðgangsnefndina svokölluðu. Ég opnaði á það í andsvari að taka út aðgangsnefndina og taka málið til frekari vinnslu milli 2. og 3. umr. Það er því rétt sem fram hefur komið að samkomulag sé um að taka málið inn milli 2. og 3. umr. og skoða sérstaklega þetta aðgengismál.

Þetta hefur talsvert verið rætt síðustu daga og við sátum hér til klukkan hálfsex í nótt, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hélt um fimm tíma ræðu og fjölmargar spurningar hafa komið fram. Ég hafði hugsað mér að reyna að svara þeim eftir bestu getu síðar í dag.