Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 14:15:36 (1866)

1998-12-09 14:15:36# 123. lþ. 36.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[14:15]

Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur fyrir þessa prýðilegu ræðu þar sem tekið er undir flest varnaðarorð sem komið hafa fram hjá talsmönnum stjórnarandstöðunnar í þessari umræðu. Eitt tæknilegt atriði langar mig að gera að umræðuefni.

Hv. þm. ítrekar nauðsyn þess að þær upplýsingar sem eiga að fara í gagnagrunn úr sjúkraskrám verði afmarkaðar betur. Ég er sammála hv. um að þetta væri æskilegt. Ekkert einstakt atriði var jafnoft drepið á í umsögnum sem nefndinni bárust. Þetta er jafnframt eitt þeirra atriða sem menn lágu talsvert yfir, þar á meðal sá sem hér talar.

Ég velti því fyrir mér ásamt fleirum hvernig hægt væri að afmarka þessar upplýsingar. Þá blasti við sá vandi að undir hinum miðlæga gagnagrunni eiga að vera dreifðir, staðbundnir grunnar frá heilbrigðisstofnunum og á að haga gerð þeirra eftir þörfum viðkomandi heilbrigðisstofnana. Að lokum var það a.m.k. persónuleg skoðun mín að æskilegt væri að breyta lögunum þannig að kveðið yrði á um að ákvörðunin um gerð þessara staðbundnu grunna og hvaða upplýsinga þeir eigi að taka til ætti að vera tekin í samráði við sérfræðinga og forráðamenn þeirra stofnana. Ég er þeirrar skoðunar að erfitt sé að afmarka nákvæmlega með lögunum eðli og umfang upplýsinga sem eiga að fara í grunninn. Ég held að það hljóti að vera mismunandi eftir stofnunum.

Ég vek athygli á því að þrátt fyrir að ekkert atriði hafi fengið jafnmargar athugasemdir í álitsgerðum sem okkur bárust þá er hvergi að finna tæka tillögu um hvernig ætti að gera þetta. Það er sá vandi sem okkur var á höndum. Ég a.m.k. komst skrefi lengra en meiri hlutinn varðandi afmörkun þessa efnis en ég náði því eigi að síður ekki að leggja fram tillögu sem beinlínis afmarkaði umfang þessara upplýsinga. Ég spyr hv. þm.: Telur hún að það sé kleift? Hefur hún hugmynd um hvernig ætti að gera það?