Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 14:48:01 (1872)

1998-12-09 14:48:01# 123. lþ. 36.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[14:48]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki miklu við þetta að bæta. Hitt er að ég get tekið undir að vitaskuld er vonin um ávöxtun, vonin um arð að nýta fé sitt, vitaskuld er það hreyfiafl þessara hugmynda. Við skulum ekki vera að velkjast í vafa um það.

Ég get tekið undir að það er engin sérstök rómantík í málinu, það er algerlega fráleitt. Það er fyrst og fremst það að hér er á ferðinni, og ég held að við séum a.m.k. sammála um það, ég og hv. þm., að í vissum skilningi erum við auðlind. Það eru peningamenn sem vilja ávaxta sitt fé í þessari auðlind. Það er kjarni málsins.

Ég segi það hins vegar líka, ég held að við eigum að nýta þessa auðlind, en því miður, virðulegi forseti, verð ég að segja að sú leið sem meiri hluti þingsins vill fara í þessu máli er leið sem ég vil ekki fylgja.