Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 15:29:01 (1879)

1998-12-09 15:29:01# 123. lþ. 36.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[15:29]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. sagði áðan að nauðsynlegt væri að þessi gagnagrunnur gæti starfað eðlilega. Ég get tekið undir það en verð að spyrja hv. þm. spurningar í þessu samhengi. Nú liggur fyrir að stór hluti heilbrigðisstéttarinnar er andvígur þessu máli. Þær hafa ályktað, skrifað um það o.s.frv. Forsenda þess að gagnagrunnur geti gengið er að hann sé í samstarfi við heilbrigðisstéttir. Það liggur í hlutarins eðli. Í öðru lagi segja allir okkar fremstu sérfræðingar í Evrópurétti að þetta gangi aldrei. Það er fyrir fram séð að það verða kærur hér út og suður og ég spyr einfaldrar spurningar, virðulegi forseti: Er minnsti möguleiki á því að þessi gagnagrunnur geti starfað eðlilega í þessu umhverfi? Er einhver minnsti möguleiki á því?