Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 15:31:22 (1881)

1998-12-09 15:31:22# 123. lþ. 36.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[15:31]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ágætt að hv. þm. minnti á EES-samninginn í þessu samhengi vegna þess að það er í raun og veru EES-samningurinn sem gerir það að verkum að þetta getur aldrei gengið í því formi sem þetta er núna. Það er grundvallaratriðið í þessu máli. Þetta getur aldrei gengið. Það verða kærur og allt verður upp í loft á næstu mánuðum. Ég á bágt með að sjá að þetta verði nokkru sinni að veruleika. Kjarni þessa máls er kannski sá að sú aðferðafræði sem birtist í frv. mun gera það að verkum að möguleiki okkar á að nýta þessa auðlind mun tefjast um ár eða meira, vegna þess að allt verður upp í loft. Heilbrigðisstéttir verða upp í loft. Það verða kærur út um allt upp í loft þannig að málið mun ekki vinnast áfram. Og kannski munum við missa af miklu tækifæri af því að við erum með þennan algalna einkarétt í þessu máli og við höfum ekki náð sátt við þá aðila sem eiga að vinna með Íslenskri erfðagreiningu --- það er alveg eins gott að nefna þá á nafn --- í þessu máli.

Það er forsenda þess að þetta geti gengið eftir. Kannski er meiri hluti þingsins núna og framkvæmdarvaldið í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu að koma í veg fyrir að við getum nýtt þessa auðlind sem við augljóslega höfum. Og það er alvarlegi hluti málsins.