Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 15:32:38 (1882)

1998-12-09 15:32:38# 123. lþ. 36.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[15:32]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mitt álit að þetta gagnagrunnsfrumvarp brjóti ekki EES-samninginn (LB: Hvaða rök hefurðu fyrir því?) og þar styðst ég við álit Lagastofnunar Háskólans, eins og fram hefur komið hér áður. (LB: Þeir segja að það mikil áhætta ...)

(Forseti (ÓE): Ekki grípa fram í.)

Ég tel að það sé alrangt hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að það að tryggja vernd á þessum gagnagrunni útiloki það að við getum notað þessa auðlind. Það er einmitt þetta sem tryggir það að við missum ekki af þessu tækifæri. Það er mín trú að vegna þess hvað það kostar mikið að setja upp þennan gagnagrunn, upp undir 20 milljarða af áhættufé, þá verði að vera einhvers konar vernd. Þetta er tímabundin vernd, tímabundin, henni lýkur. En það verður að vera tímabundin vernd til þess að einhver fáist til að fjárfesta í svona áhættusömu fyrirtæki.

Ég minni á að þetta er mikið tækifæri. Það er rétt hjá hv. þm. Og til þess að tryggja að við getum nýtt það þá þurfum við að veita þessa vernd.