Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 15:44:21 (1891)

1998-12-09 15:44:21# 123. lþ. 36.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[15:44]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að hv. frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. hafi leitast við að svara ýmsum þeim spurningum sem hafa komið upp í umræðunni þá varð ýmislegt eftir. Í nál. hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur, sem myndar 2. minni hluta heilbr.- og trn., er m.a. lögð áhersla á að ekki liggi fyrir hvaða upplýsingar eiga að fara inn í grunninn. Nú liggur fyrir yfirlýsing frá meiri hlutanum eða vilji til þess að taka málið inn á milli 2. og 3. umr. Mun þetta atriði skýrast eitthvað í þeirri vinnu? Mun það liggja fyrir hvaða upplýsingar eiga að fara inn í grunninn?

Jafnframt hafði hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir bent á að frv. bryti í bága við samkeppnisreglur EES. Hún byggði það á áliti Samkeppnisstofnunar og reyndar að hluta til á áliti Lagastofnunar Háskóla Íslands, sem treysti sér ekki til að fullyrða að einkarétturinn standist EES-reglurnar, heldur segja höfundar álitsins einungis að einkarétturinn geti samrýmst þeim þó að með því sé tekin nokkur áhætta. Hv. þm. hafði farið fram á að leitað yrði álits erlendra aðila á þessum þætti. Því var hafnað af meiri hlutanum. Verður þetta tekið upp á milli 2. og 3. umr.?