Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 15:45:53 (1892)

1998-12-09 15:45:53# 123. lþ. 36.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[15:45]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég reyndi að svara því áðan í ræðu minni af hverju því var hafnað að leita til erlendra aðila. Ég tel að það sé ekki rétt að leita til erlendra aðila varðandi þetta mál. Við erum búin að skoða það hér í þinginu alveg ágætlega.

Hins vegar varðandi samkeppnisreglur EES þá er það rétt sem hér kom fram að Lagastofnun telur að þær geti samrýmst þessu lagafrv. en þar sé tekin nokkur áhætta eins og hér hefur margoft komið fram, af því að málið er svo nýtt eða af því að aldrei hefur verið búinn til sambærilegur gagnagrunnur.

Varðandi það hvaða upplýsingar fara inn í grunninn þá er ég búin að fara nokkuð ítarlega yfir það hvernig ég sé það fyrir mér. Hins vegar hafa margir viljað fá skýringar á því hvaða upplýsingar úr sjúkraskrám ættu að fara inn í grunninn. Við höfum ekki tekið á því í nefndinni og kusum að gera það ekki þar sem það á að hafa samráð við sérgreinafélög lækna um það hvaða upplýsingar úr sjálfum sjúkraskránum fara inn og um það eru deildar meiningar. Sumir vilja að mikið fari inn, aðrir vilja að lítið fari inn. En það verður sem sagt ákveðið þegar samningar verða gerðir við stofnanir, hvað nákvæmlega fer inn.