Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 15:48:53 (1894)

1998-12-09 15:48:53# 123. lþ. 36.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[15:48]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki hugmynd um það hvort þetta verði kært strax eftir að frv. verður samþykkt. Ég á ekkert frekar von á því. Hins vegar varðandi það að senda málið út til erlendra stofnana þá vissum við nokkuð fljótt í vinnu nefndarinnar að við mundum gera miklar breytingar á frv. varðandi vísindasiðanefnd. Hún var ekki í frv. þegar við fengum það í vinnslu en við ákváðum sameiginlega að setja inn þessa vísindasiðanefnd og mesti ágreiningurinn við vísindasamfélagið erlendis frá var að þessu leyti. Það var mikill ágreiningur. Kannski er óeðlilegt að segja mesti. Það er kannski erfitt að meta hvað var mest og hvað var minnst. (Gripið fram í.) En það var mikill ágreiningur vegna þess að það vantaði þessa vísindasiðanefnd sem átti að fara yfir fyrirspurnir og rannsóknir fyrir fram.

Varðandi læknasamfélagið hef ég ekki meira um það að segja. Ég sagði áðan að 108 læknar plús nokkrir heimilislæknar (MF: 44.) 44 já, hefðu skrifað undir pappír. Reyndar skil ég ekki af hverju þeir gera það, eða ég er ósammála því sem stendur í textanum ofan við þær undirskriftir. En fjölmargir læknar styðja þetta mál og þeir komu m.a. til liðs við okkur í nefndinni til að útskýra það betur fyrir okkur. Ég minni á bréf 15 dósenta og prófessora við Háskóla Íslands, fjölmargra lækna sem voru mjög hlynntir þessu máli.