Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 21:27:33 (1902)

1998-12-09 21:27:33# 123. lþ. 36.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[21:27]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel ekki að þetta mál stangist á við samkeppnislög. Það kemur mjög skýrt fram í málinu að viðkomandi rekstrarleyfishafi væntanlegur á að fara eftir samkeppnislögum. Og það kemur reyndar fram í greinargerð Samkeppnisstofnunar að þetta frv. standist samkeppnislög. En ég tel að talsverðar líkur séu á því að viss misskilningur sé í því áliti af því ég hef skilið það þannig að það álit grundvallist á 9. gr. varðandi aðgengisnefndina og álitið sé að það sé eini kanallinn inn í gagnagrunninn. En það er ekki þannig, menn geta farið fram hjá aðgengisnefndinni með því að borga þá fullt verð.

Einnig kom fram í fyrirspurn hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að eðlilegt væri að taka persónuverndarfrumvarpið hér til afgreiðslu í leiðinni, en ég vil bara minna á að það frv. er óháð þessu gagnagrunnsfrv., við hefðum þurft að samþykkja þá tilskipun hvort eð er. Við fengum vinnuplagg til nefndinarinnar, drög að frumvarpi, og við skoðuðum það en það er ekki orðið að þingskjali. Ég vil sérstaklega taka fram í því sambandi vegna þess að deilan varðandi það mál stóð um það hvort skilgreiningin á persónuupplýsingum væri eins í gagnagrunnsfrv. og í komandi persónuverndarfrv., að þá er það bein þýðing á hvað eru persónuupplýsingar í gagnagrunnsfrv. Það er bein þýðing úr tilskipun EES varðandi persónuverndina. Ég tel því að við séum að gera hárrétta hluti í gagnagrunnsfrv.