Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 21:31:48 (1904)

1998-12-09 21:31:48# 123. lþ. 36.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. 2. minni hluta BH
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[21:31]

Frsm. 2. minni hluta heilbr.- og trn. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni í gær fór ég yfir nokkur atriði þessa máls og vakti m.a. athygli á því að óeðlilegt væri að frv. til laga um persónuvernd hafi ekki verið tekið til umfjöllunar, eins og hér var líka vakin athygli á af síðasta ræðumanni, hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur. Ég vil byrja á að segja vegna þess svars sem hv. framsögumaður heilbr.- og trn., Siv Friðleifsdóttir, sagði um samanburðinn á annars vegar persónuverndardrögunum og hins vegar því frv. sem hér er til umræðu um hvað persónugreinanlegar upplýsingar séu, þá þykir það nú ekki góð latína í lögfræði að þýða beint. Það þarf að sjálfsögðu að skoða slíkar þýðingar í samhengi við íslenskan rétt að öðru leyti og það er einmitt gert í þessum persónuverndarfrumvarpsdrögum. Það er mjög góð samantekt á því í greinargerð hvernig íslenskar reglur um persónuvernd spila saman, hvernig reglur og hefðir spila saman við alþjóðlegar reglur sem við erum skuldbundin af og þar er fengin ákveðin niðurstaða sem ég a.m.k. tel vera mun réttari en þá sem hér er notuð.

Ég er því þeirrar skoðunar að þarna sé um persónugreinanlegar upplýsingar að ræða hvernig sem á málið er litið og þess vegna þurfi að leita eftir samþykki einstaklinga fyrir þátttöku í grunninum. Ég benti líka á það í fyrri ræðu minni að frv. felur í sér óeðlilega opinbera íhlutun í málefni atvinnulífsins sem hefur í för með sér að líftækniiðnaðurinn, sem er einn helsti vaxtarbroddur íslensks iðnaðar, mun í framtíðinni búa við óeðlileg samkeppnisskilyrði. Veiting einkaréttar til eins fyrirtækis að gerð og starfrækslu gagnagrunnsins mun í krafti markaðsráðandi stöðu þess hafa skaðleg áhrif á önnur fyrirtæki sem starfa á sama sviði og að mínu mati á það að heyra sögunni til að ríkisvaldið beiti slíkum verndarúrræðum sem einkarétti. Frjáls samkeppni er hvergi nauðsynlegri en einmitt á sviði vísinda og rannsókna og hún er líka líklegust til þess að skila mestri framþróun til lengri tíma litið. Ég dró það líka fram að frv. bryti í bága við samkeppnisreglur EES og ég er þeirrar skoðunar að málið muni fyrr en síðar verða kært til samkeppnisyfirvalda og hugsanlega til alþjóðlegra dómstóla. Hugsanlega verði það líka lagt fyrir íslenska dómstóla, fyrst og síðast kannski vegna þess að líkur eru á því að mínu mati að það brjóti í bága við ákveðin ákvæði stjórnarskrárinnar, ekki síst í ljósi nýgengins kvótadóms sem snertir að mörgu leyti ákvæði sem þetta mál snertir líka.

Ég tel a.m.k. rétt þótt ég vilji ekki fullyrða að lagaskylda sé fyrir því að viðhafa útboð um þessa framkvæmd, þá tel ég að aðeins þannig sé unnt að leita bestu leiða bæði í vísindalegu tilliti og ekki síður í fjárhagslegu tilliti til að framkvæma þetta verk.

Það hefur margt verið sagt í þessari umræðu síðan ég hélt fyrri ræðu mína og komið hefur fram hörð gagnrýni á frv. en að mínu mati hefur verið mjög lítið um svör af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það hefur lítið verið um skýringar á veigamiklum þáttum málsins þó að hv. framsögumaður heilbr.- og trn. hafi vissulega svarað í ræðu sinni fyrr í dag einhverjum þeim spurningum sem fram voru lagðar, en það er margt enn óljóst að mínu mati. Ég tel að gagnagrunnurinn geti aldrei úr þessu, eftir allt sem á undan er gengið, orðið það tæki sem hann átti að vera í upphafi. Ástæður þess eru kannski helstar þær að gífurlegur ófriður er í kringum þetta mál í öllu vísindasamfélaginu bæði hér heima og líka erlendis. Það hefur mikið verið fjallað um þetta mál víða á erlendum vettvangi. Almenningur verður æ tortryggnari gagnvart málinu, þeim fjölgar sem vilja ekki vera með í grunninum og samkvæmt nýlegri skoðanakönnun eru ekki nema um 13% Íslendinga sem í raun og veru telja sig þekkja vel til þessa frv. Það segir manni svolítið meira en margt annað um það hve málið er í raun og veru enn skammt á veg komið að þrátt fyrir að sú umræða sem átt hefur sér stað síðan í vor hafi vissulega skilað miklu og hafi verið góð á allan hátt, þá er það enn svo að fólk skilur þetta mál ekki alveg og mig undrar það ekki að svo sé vegna þess að málið er mjög flókið og einstaklega óskýrt í framsetningu af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Það er fyrirséð að vísindalegt gildi grunnsins verður lítið sem ekkert. Það er ekki aðeins að hann verði götóttur eins og sjá má af því að nú þegar hafa um 150 læknar lýst sig andvíga honum, heldur mun fjöldi manns ekki taka þátt, ákveðnir sjúklingahópar munu ekki taka þátt í grunninum. Er þar kannski helst til að taka þá hópa sem eru einmitt hvað eftirsóknarverðastir, þeir sem eru veikastir. Það eru þeir sem eiga t.d. við andlega sjúkdóma eða geðsjúkdóma að stríða svo dæmi séu tekin. Það má líka nefna að ég sé ekki betur en að á þeirri 108 manna skrá sem læknar afhentu hér í gær, um lækna sem eru andvígir frv., séu t.d. allir starfandi læknar á Reykjalundi svo dæmi séu tekin ef ég skil þetta rétt. Það er því ekki aðeins að gagnagrunnurinn verði götóttur, hann verður beinlínis mjög bjagaður og gefur mjög bjagaða mynd af íslensku samfélagi þannig að það er ekkert hægt að nota hann á þann hátt sem til stóð í upphafi.

Það er líka ljóst að mínu mati að augu alheimsins eru á þessu máli og því miður hefur sú athygli og umfjöllun sem við höfum fengið út á það ekki verið mjög jákvæð. Það eru margir sem telja siðareglur á þessu sviði þverbrotnar og ég er þeirrar skoðunar að málið sé langt frá því að auka hróður íslensku þjóðarinnar út á við eins og haldið hefur verið fram.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði fyrr í umræðunni að þetta væri mjög merkilegt mál og það væri skrýtið að fólk áttaði sig ekki á því. En ég vil benda á að þessi hugmynd, sem nú er komin í frumvarpsbúning, er ekkert að fæðast í fyrsta skipti hjá hinum svokallaða frumkvöðli í þessu máli, Kára Stefánssyni. Það hafa margir fleiri haft áhuga á að framkvæma slíka hugmynd og gerðar hafa verið tilraunir í þá veru þótt þær fjalli ekki nákvæmlega um heila þjóð. Það eru ekki síst lyfjafyrirtæki sem hafa haft áhuga á að komast yfir slíka grunna og því tel ég það enga tilviljun að umræddur rekstrarleyfishafi hafi nýverið gert stóran samning við þekkt og stórt lyfjafyrirtæki. Og þó að því hafi verið haldið fram að þetta frv. sé ekki forsenda þess samnings, þá trúi ég því samt sem áður að það hafi skipt einhverju máli að þetta fyrirtæki var valið sem samstarfsaðili að til stóð að leggja fram þetta frv. Ég tel að það hafi haft mikið um það að segja, án þess að ég geti beinlínis sannað það eða sýnt fram á að það hafi verið hluti samningsins og reyndar hefur rekstrarleyfishafinn væntanlegi lýst því yfir að ekkert standi um þetta í samningnum. Allt að einu tel ég að það hljóti nú að hafa skipt máli um það að samningurinn var gerður.

Í tímaritinu Time frá 30. nóvember 1998 er einmitt fjallað um svipuð mál. Við lestur þeirrar greinar sést að þetta mál sem við erum að skoða er aðeins angi af fjölþjóðlegu máli sem fjallað er ítarlega um í tímaritsgreininni. Þar er talað um nýja gerð gullæðis en að nú sé ekki barist um eignarhald á landi heldur um yfirráð yfir genum sem geta gefið mikið í aðra hönd. Hörð átök eiga sér stað vegna sóknar iðnvæddra þjóða í erfðafræðilegar auðlindir þróunarlanda. Nefnd eru nokkur dæmi um það sem stundum er kallað og er kallað í þessari grein, genasjóræningjastarfsemi, t.d. þegar slíkir aðilar komu höndum yfir blóðsýni úr ákveðnum þjóðflokki indíána og fengu einkaleyfi á erfðaeiginleikum þeirra og annað dæmi frá Kína þar sem bandarískir aðilar hafa komist yfir blóðsýni úr 10 þúsund öldruðum Kínverjum í óþökk Kínverja, en til stendur að rannsaka langlífi þessa hóps. Síðan er sagt frá því í greininni að samkvæmt upplýsingum frá samtökunum ,,No Patent for Life`` skila lyfjafyrirtæki afar sjaldan sanngjörnum gróðahlut til þjóðanna sem lögðu til hráefnið ef svo má að orði komast.

Hið versta við þetta svokallaða genastríð er hins vegar að það vinnur á vissan hátt gegn framförum í vísindum. Eðlileg þróun í vísindum hefur hægt á sér vegna þessa því að einkafyrirtæki hafa verið í tengslum við slík verkefni að setja upp í raun og veru skiltið ,,umferð bönnuð`` á ákveðnum sviðum og þess vegna standa nú mjög margar þjóðir í raun á bremsunni gagnvart ofstopa, vil ég segja, lyfjafyrirtækja og annarra aðila sem vilja komast yfir erfðafræðileg verðmæti þjóða. Þetta hefur líka áhrif á það sem ég vil kalla aðrar og kannski eðlilegri og mannúðlegri rannsóknir þar sem sanngirni er gætt í meira mæli og farið er eftir ákveðnum siðareglum, að þær tefjast og þar með er í raun og veru verið að standa gegn framþróun í vísindum. Ég tel þetta vera að gerast á Íslandi vegna ofstopa í tengslum við framgang þessa máls, hvernig átti að berja það í gegn algerlega vanbúið á vordögum. Það var til þvílíkrar skammar hvernig þetta mál var fyrst kynnt fyrir þinginu. Það var algjörlega óunnið og varla hægt að kalla það frv. sem fyrst leit hér dagsins ljós. Það var varla hægt að kalla það frumvarpsdrög vegna þess að það var svo illa samið og illa ígrundað á allan hátt. Ýmislegt sem hefur komið í ljós síðan þá, ég vil segja ákveðinn óskýrleiki af hálfu meiri hlutans hvað þetta mál þýði í raun og um hvað það sé, hefur vakið vantraust hjá fjöldamörgum einstaklingum og í raun ótta við rannsóknir yfir höfuð. Ég held ég sé ekkert einsdæmi um það eftir þessa umræðu að hugsa mun meira um og velta meira fyrir mér en áður í hverju maður tekur þátt í tengslum við þessa hluti og það er vissulega af hinu góða, en það má ekki verða til þess að við séum með því að hamla gegn framförum á vísindasviðinu og vekja kannski upp óþarfa tortryggni gagnvart fjöldamörgum vísindamönnum í tengslum við það mál.

[21:45]

Vegna þess hversu bjagaður grunnurinn er orðinn eftir þessa málsmeðferð alla get ég ekki séð betur en hann sé ónýtur til skýrslugerðar fyrir heilbrigðisyfirvöld eins og stóð til í upphafi, vegna þess að það vantar svo mikið inn í hann og hann gefur ekki rétta mynd af samfélaginu. Það vantar hugsanlega inn í hann viðkvæmustu hópana og kannski erfiðustu á mörgum sviðum. Mér skilst að hann sé ekki nýtanlegur til leitar að svokölluðum meingenum. Ég man ekki betur en ég hafi heyrt það haft eftir væntanlegum rekstrarleyfishafa að það þyrfti miklu nákvæmari upplýsingar til slíkrar leitar. Þá veltir maður því fyrir sér hvað sé eftir, til hvers sé hægt að nota hann. Er það ekki bara svo að það sem er eftir er að hægt er að nota hann til að rannsaka áhrif lyfja eins og vakin hefur verið athygli á í umræðunni M.a. vakti hv. þm. Ögmundur Jónasson athygli á því í sinni ræðu í gær. Hann fór ítarlega yfir rökstuddan grun sinn um að lyfjarannsóknir eigi að fylgja með í öllum þessum pakka, las m.a. kafla úr skjali sem Íslensk erfðagreining hefur gefið út á einhverju stigi málsins til fjárfesta. Þessi atriði sem hann las hér upp og ég hafði reyndar séð áður í skjölum sem ég hef undir höndum, fundust mér mjög sannfærandi og í raun hefur það ekki verið hrakið eftir því sem ég best hef séð.

Ég velti því líka fyrir mér hver sé hinn fjárhagslegi ávinningur rekstrarleyfishafans væntanlega af þessu fyrirbæri eins og það nú er orðið. Hvernig á að ná inn þessum tugum milljarða? Ég trúi því nú ekki að þetta sé gert allt í góðgerðarstarfsemi. Einhvers staðar frá verða peningarnir að koma og þeir hljóta að þurfa að koma inn svolítið hratt til að þessi framkvæmd standi undir sér fyrir rekstrarleyfishafa og til að þetta sé fýsileg fjárfesting. Hvar á að ná þeim peningum inn? Ég velti því fyrir mér. Í sjálfu sér má svo sem halda því fram að það sé ekki vandamál stjórnvalda en það væri eigi að síður kannski til upplýsingar fyrir okkur, til að skilja þetta mál betur, ef við fengjum einhver svör við slíkum spurningum.

Það er ekki bara tímaritið Time sem hefur fjallað nýlega um þetta mál, fjöldi annarra erlendra tímarita hefur fjallað um málið nýlega. Ein grein var í tímaritinu Science 30. október og hún dregur kannski fram hversu almenn og víðtæk þessi umfjöllun hefur verið á erlendum vettvangi. Ég vil meina að minnsti hluti hennar hafi skilað sér inn í umfjöllunina hér heima og hefur ekki verið gerð grein fyrir henni allri í íslenskum fjölmiðlum.

Í greininni í Science sem er eftir mann að nafni Martin Enserink segir m.a. að í marga mánuði hafi áform um að setja saman gagnagrunn um sjúkraskýrslur allra Íslendinga valdið heitum umræðum í afskekktu og fámennu landinu sjálfu eins og þeir orða það, en vakið litla athygli meðal annarra þjóða. En nýlega breyttist það. Erfðafræðingar, lífvísindasiðfræðingar og sérfræðingar um persónuvernd bæði annars staðar í Evrópu og í Bandaríkjunum sameinast nú um að mótmæla slíkum gagnagrunni og hvetja Íslendinga til að hugsa sig vel um áður en þeir samþykkja frv. sem gerði mögulegt að setja hann saman. Í fyrsta lagi segja þeir að sú skerðing persónuverndar sem frv. mundi hafa í för með sér yrði nær hvergi heimiluð og mundi jafnvel skerða mannréttindi Íslendinga. Gagnrýnin kemur fram á sama tíma og Alþingi Íslendinga er loks að búa sig undir að greiða atkvæði um þriðju útgáfu frv. um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Fyrsta útgáfan var lögð fram á Alþingi í mars en dregin til baka nokkrum vikum síðar eftir mikla öldu mótmæla frá íslenskum læknum, vísindamönnum og samtökum sjúklinga.

Seinna segir að samkvæmt frv. yrði sjúkraskýrslum allra Íslendinga safnað saman í miðlægan gagnagrunn. Eitt fyrirtæki, Íslensk erfðagreining í Reykjavík, stofnað af Kára Stefánssyni fyrrverandi erfðafræðingi við Harvardháskóla, fengi 12 ára einkaleyfi til að reka gagnagrunninn og selja öðrum aðilum aðgang að honum.

Því er síðan lýst hér að jafnvel eftir síðustu lagfæringar þá haldi gagnrýnendur því enn fram að frv. sé óásættanlegt og því er lýst í stuttu máli hver helstu gagnrýnisatriði frv. séu hér innan lands. Síðan segir að gagnrýnendum á Íslandi hafi nú borist liðsauki erlendra vísindamanna og sérfræðinga. Kári Stefánsson heldur því fram, segir í greininni, að þessir erlendu aðilar hafi verið blekktir af íslenskum gagnrýnendum frv. sem dreifa rangindum um frv. út um víðan völl, að hans mati.

Í greininni segir síðan að erfðafræðingurinn Marie Claire King við Washingtonháskóla í Seattle og Henry Greely sérfræðingur í erfðafræði og lögum frá Stanfordháskóla, hafi nýlega skrifað bréf til forsrh., dómsmrh., heilbrrh. og menntmrh. Íslands þar sem þau hafi hvatt þá til að endurskoða áformin.

,,Þótt hugmyndin um miðlægan gagnagrunn sé í sjálfu sér jákvæð og spennandi``, skrifa King og Greely, ,,er núverandi frv. afar viðsjárvert hvað varðar meðferð þess á einstaklingum, á allri íslensku þjóðinni og vísindunum.``

Í bréfi sem birt var í íslensku dagblaði mælir Richard Lewontin, erfðafræðingur við Harvardháskóla, gegn því að veita slíkt einkaleyfi. Sú grein var birt í Morgunblaðinu á sínum tíma og það er dregið hér fram að Lewontin segir það geta leitt til þess að farið verði fram á að Íslendingar verði sniðgengnir í vísindaheiminum en því aðeins að íslenskir félagar okkar samþykki það, eins og hann orðaði það.

Síðan er það dregið fram að harðasta gagnrýnin komi frá öðrum Evrópuþjóðum. Vakin er athygli á áliti Ross Andersons sem hefur verið títt nefndur hér í umræðunni, en hann er sérfræðingur um tölvuöryggi. Hann segir að það eitt að nema nöfn þeirra, heimilisföng og fæðingardaga úr sjúkraskránum sé ekki nægilegt. Hjá innan við 300 þúsund manna þjóð muni jafnvel örfá önnur gögn nægja til að upplýsa hver einstaklingurinn er.

Síðan er bent á að komið hafi fram gagnrýni frá lögfræðingum, að sextán fulltrúar tölvunefnda EES-ríkja sem ræddu málið á fundi á Spáni í september sl. hafi hvatt dómsmrh. Íslands til að endurskoða áformin vegna þess að þeir segja að þau munu brjóta gegn nokkrum sáttmálum Evrópuríkja, einkum mannréttindasáttmála Evrópu. Síðan er líka dregið fram álit Peter J. Hustinx, formanns tölvunefndar Hollendinga, sem varar við því að verði frv. að lögum geti Íslendingar átt dóm Evrópudómstólsins í Strassbourg yfir höfði sér. Hér er svona aðeins stuttlega gripið ofan í þessa grein í Science sem er ein fjölmargra greina sem fjalla um þetta í erlendum fjölmiðlum.

Ég lagði þá spurningu fyrir hv. frsm. meiri hlutans í heilbr.- og trn., hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, hvort ættfræðiupplýsingar og erfðafræðiupplýsingar væru inni í grunninum. Þarna hafa komið fram mjög misvísandi skilaboð frá meiri hlutanum, sérstaklega ef bornar eru saman ræður hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og hv. þm. Tómasar Inga Olrichs. En eigi það að vera svo, sem virðist vera, að ættfræðiupplýsingar og erfðafræðiupplýsingar séu inni í grunninum, þá er um að ræða grundvallarbreytingu á gerð frv. sem skiptir verulegu máli og þyrfti þá að taka til algerrar endurskoðunar, algerlega frá grunni þar sem því hefur verið haldið fram að þetta eigi ekki að vera svona. Í frv. heilbrrn. og grg. því fylgjandi kemur nefnilega fram að í miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði skuli eingöngu færa heilsufarsupplýsingar úr sjúkraskrám landsmanna í vörslu heilbrigðisstofnana og sjálfstætt starfandi lækna. Í þeim nýju tillögum sem nú liggja fyrir er hins vegar lagt til að heimilt verði einnig að færa aðrar upplýsingar, svo sem ættfræði- og erfðafræðiupplýsingar, inn í gagnagrunninn. Í svari sínu um þetta viðurkennir hv. þm. Siv Friðleifsdóttir það í raun og veru þar sem hún segir að ættfræðigrunnurinn eigi að vera í aðskildu gagnasafni. Hún reyndar dregur það fram og segir að það sé rétt sem haldið hefur verið fram að þetta stangist að nokkru leyti á við upplýsingar í grg. Þarna er því um að ræða mjög misvísandi skilaboð sem ég tel vera mjög alvarlegt mál því þetta er grundvallaratriði í öllu málinu, grundvallaratriði. Þessi breyting, að ættfræði- og erfðafræðiupplýsingarnar séu þarna inni, hefur það í för með sér að ákvæði 8. gr. frv. um rétt einstaklings til að hafna þátttöku verður marklaust þar sem út frá samtengingu ættfræði- og heilsufarsupplýsinga ættingja sem eiga gögn í gagnagrunninum, t.d. þeim sem látnir eru, má draga ályktanir um heilsufar og áhættu annarra einstaklinga á að veikjast af ákveðnum sjúkdómum sem finnast í fjölskyldunni. Á það hefur verið bent, m.a. af hálfu erfðafræðinga, að ef ættfræðigagnabanki verður í hinum miðlæga gagnagrunni geta í reynd engir Íslendingar hafnað þátttöku í vísindarannsóknum á vegum sérleyfishafans og þar með er brotin ein af megin reglum vísindarannsóknasiðfræði.

Þessir erfðafræðingar hafa verið að benda okkur á að út frá erfðafræðiupplýsingum og genakortum fámenns hóps má draga ályktanir um arfgerðir ættingja þeirra og öðlast nákvæma mynd af erfðaeiginleikum annarra fjölskyldumeðlima sem ekki hafa veitt til þess leyfi. Það er varað við því að blanda saman upplýsingum sem þarf upplýst samþykki fyrir annars vegar og hins vegar öðrum upplýsingum sem ekki þarf slíkt samþykki fyrir, vegna þess að þarna er hægt að draga ályktanir út frá einum einstaklingi og þá í raun að búa til mynd af öðrum, kannski af barni einhvers. Ef þetta barn t.d. neitar að vera með í grunninum þá er í rauninni ákvæðið um neitunina marklaust. Þetta tel ég vera mjög alvarlegt mál og verður örugglega eitt af því sem verður mjög ítarlega rætt í heilbr.- og trn. á milli 2. og 3.umr. Ég tel nauðsynlegt að allur vafi sé tekinn af um þetta endanlega því að þetta er grundvallaratriði í málinu.

Ég vakti líka athygli á því í minni fyrri ræðu að ég teldi einkaréttinn sem slíkan ekki standast samkeppnisreglur EES-samningsins. Ég lýsti því yfir auk þess að frjáls samkeppni væri nauðsynleg á vísindasviðinu. Ég taldi líka að einkarétturinn sé ekki nauðsynlegur til verndar þessum margumtalaða frumkvöðulsrétti.

Í áliti Samkeppnisstofnunar er fjallað svolítið um þetta. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Í ræðu Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, sem flutt var á kynningarfundi með læknum í september 1998, er einnig að finna athugasemdir er lúta að nauðsyn þess að rekstrarleyfishafa verði veittur einkaréttur. Þar segir að einkaréttur sé eðlilegur í því ljósi að hugbúnaðariðnaðurinn almennt búi við einkaleyfi sem séu nauðsynleg forsenda fyrir því að hann fái þrifist. Þá er nefnt að stofnkostnaður sé hár og umtalsvert hærri fyrir þann aðila sem fyrstur fari af stað, mikil óvissa ríki um hagnýtingarmöguleika og gagnagrunnur af þeirri gerð sem frv. gerir ráð fyrir hafi aldrei áður verið markaðssettur. Þá segir að markaðssetning gagnagrunnsins yrði mjög erfið ef margir aðilar væru að markaðssetja slíkan grunn, eftir atvikum á ólíkum forsendum. Slíkt gæti leitt til þess að markaðssetning gagnvart þeim aðilum sem myndu geta hugsað sér að eiga viðskipti með upplýsingar úr grunninum, mistakist. Jafnvel þótt slík markaðssetning tækist myndi samkeppni á milli aðila hérlendis sem væru að bjóða fram upplýsingar úr gagnagrunnum aðeins leiða til þess að heildarverðmæti viðskiptanna inn í landið myndi minnka. Aðilar myndu undirbjóða hvern annan með þessum afleiðingum.

Við mat á því hvort framangreind rök fyrir nauðsyn einkaréttar séu nægjanleg til að fella starfsemi rekstrarleyfishafa undir undanþágureglu 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins`` --- sem er undanþága frá þessum samkeppnisreglum í raun og veru --- ,,verður að hafa í huga það sem að framan er rakið`` --- í þessu áliti --- ,,um að ekki verði fallist á undanþágu nema rekstraleyfishafa sé tæknilega eða fjárhagslega ógerlegt að inna af hendi það verkefni sem honum er falið nema að hann njóti einkaréttar. Með vísan til framanritaðs má spyrja hvort það sé í raun forsenda fyrir því að í gerð gagnagrunns verði ráðist að rekstrarleyfishafi megi brjóta gegn samkeppnisreglum EES-samningsins, til að mynda banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Í því gæti falist að rekstraleyfishafa verði að vera heimilt að mismuna viðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og veikja þar með samkeppnisstöðu þeirra, ... Ef slíkt ætlað brot á 54. gr. EES-samningsins, eða öðrum reglum hans, er ekki nauðsynlegt til að í gerð gagnagrunns verði ráðist verður að ætla að skilyrði undanþágu skv. 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins séu ekki uppfyllt.``

Það er líka dregið fram að talið er vafasamt að rök um mikinn stofnkostnað falli undir slíka löglega undanþágu og Samkeppnisstofnun bendir á að slík rök mætti þá oft nota í því skyni að komast hjá eftirliti á grundvelli samkeppnisreglna EES-samningsins. Það er m.a. dregið fram að ef fallist yrði á rök af þessum toga gæti hár stofnkostnaður og óvissa um arðsemi fyrirtækis ávallt veitt aðildarríki rétt til að veita einkarétt til starfsemi, t.d. á sviði stóriðju. Það er nefnt sem dæmi.

[22:00]

Spyrja mætti hvort aðrar leiðir til að vernda einkarétt starfsleyfishafa séu ekki færar. Ég benti á það í ræðu minni að dregnar hefðu verið fram aðrar leiðir en einkaréttur í þessari umræðu, m.a. í blaðagreinum sem hafa verið skrifaðar um málið, til að vernda svona starfsemi. Einkaleyfi er í raun og veru mjög alvarleg íhlutun í atvinnulífið.

Í áliti Samkeppnisstofnunar kemur fram að samkvæmt tilskipun um vernd gagnagrunna sem tekin hefur verið inn í EES-samninginn njóti eigandi eða rekstrarleyfishafi gagnagrunns víðtækrar verndar gegn óheimilli hagnýtingu annarra aðila á upplýsingum eða efni úr grunninum. Samkeppnisstofnun hafnar því með þessum rökum og fleirum að um sé að ræða undanþágu frá samkeppnisreglum EES hvað þetta mál varðar.

Hv. þm. Tómas Ingi Olrich hefur haldið því fram að þetta séu heilbrigðismál sem heyri þar af leiðandi ekki undir þennan samning. Ég mótmæli þessum skilningi. Hér er fyrst og fremst um viðskipti að ræða og ætti þar af leiðandi að falla undir samkeppnisreglur EES-samningsins.

Ég hef líka vakið athygli á því að einkarétturinn gæti hugsanlega verið brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og þá einkum í ljósi nýgengins hæstaréttardóms, svokallaðs kvótadóms. Þar segir Hæstiréttur að jafnræðisreglur stjórnarskrárinnar og ákvæði hennar um atvinnufrelsi stangist á við að úthluta ákveðnum verðmætum, veiðileyfum, til ákveðinna hópa og útiloka þar með aðra. Þessi dómur er að mínu mati bann við klíkuskap, það má eiginlega orða það svo einfaldlega. Hann er bann við því að ríkisvaldið úthluti verðmætum til útvalinna því að slík mismunun stenst ekki ákvæði stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi og jafnræðisregluna.

Ég spyr: Ef úthlutun veiðileyfa eða veiðiheimilda stenst ekki þessi ákvæði, hvað þá með úthlutun einkaréttar til eins fyrirtækis á borð við það sem ráðgert er með gagnagrunnsfrumvarpinu? Þar á, herra forseti, að úthluta fyrirtæki einkarétti til tólf ára án útboðs. Í þokkabót virðist sem byrjað hafi verið á því að ákveða hverjum ætti að úthluta þessum rétti og síðan hafi það verið útfært í ákveðinn frumvarpsbúning. Ég tel engum vafa undirorpið og vil reyndar fullyrða að frv. brjóti a.m.k. í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Í Morgunblaðinu í dag er nokkuð ítarleg fréttaskýring um þetta mál, samanburður á annars vegar gagnagrunnsfrumvarpinu gagnvart þessum ákvæðum stjórnarskrárinnar og hins vegar kvótadóminum. Þar er vakin athygli á því að í umræðunni um einkaréttarþáttinn hafi menn lengst af ekki nefnt ákvæði stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi og jafnræði borgaranna. Eins og bent er á í þessari fréttaskýringu Morgunblaðsins hefur atvinnufrelsisákvæðið sem nú er í 75. gr. hingað til haft litla sem enga þýðingu í réttarframkvæmd og var í raun allt að því fallið í gleymsku. Í skýringunni segir að jafnræðisreglan í 65. grein sé svo opin að á meðan ákvæðið sé jafnnýtt og raun ber vitni --- árið 1995 er settur skrifaður texti inn í þetta þó að reglan hafi verið talin gilda áður --- liggi lítil sem engin dómaframkvæmd Hæstaréttar fyrir og fæstir hafi hugmynd um hvað geti falist í reglunni.

Með þessum dómi Hæstaréttar lifna hins vegar við þessi ákvæði stjórnarskrárinnar. Þau eru í aðalhlutverki og það er merkilegt í sjálfu sér. Það er einmitt dregið mjög vel fram í þessari fréttaskýringu.

Síðan spyr sá sem hefur þessa umfjöllun með höndum að því hvort hægt sé að heimfæra þennan dóm upp á gagnagrunnsfrv. og veitingu sérleyfis sem í því felst. Vakin er athygli á því að röksemdafærslan hjá Hæstarétti í kvótadómnum fylgir þekktu mynstri sem segja megi viðtekið hjá helstu stjórnarskrárdómstólum álfunnar og Mannréttindadómstól Evrópu. Spurt er hvort um skerðingu réttinda hafi verið að ræða, hvort hún hafi þjónað lögmætu markmiði og hvort gengið sé lengra en nauðsyn krefur. Þetta eru að mörgu leyti sömu sjónarmiðin og búa að baki því þegar metið er hvort um sé að ræða brot á samkeppnisreglum EES sem ég kom inn á áðan, þó að þetta sé kannski orðað svolítið öðruvísi þar.

Í úttekt Morgunblaðsins segir að aðstæður varðandi kvótann og sérleyfi til gerðar gagnagrunns séu auðvitað ólíkar þó finna megi eitt og annað sameiginlegt milli málanna. Í báðum tilvikum má segja að atvinnufrelsið sé í húfi, annars vegar frelsi til fiskveiða en hins vegar frelsi til erfðarannsókna.

Í raun mætti ætla að gagnagrunnsfrv. teldist fela í sér takmörkun á atvinnufrelsi, þ.e. atvinnufrelsi annarra en rekstrarleyfishafans. Fjölmargir vísindamenn hafa bent á að þetta muni óneitanlega hafa áhrif á starfsemi þeirra og feli í sér takmarkanir á möguleikum þeirra til að sinna vísindastarfsemi sinni, m.a. verði þeim gert erfiðara um vik en áður að fjármagna starfsemina þar sem kominn sé ákveðinn ,,stóri bróðir`` á markaðinn sem kannski er fýsilegri samningsaðili í hugum þeirra sem leitað er til með fjármögnun. Þetta atvinnufrelsi gæti hugsanlega verið skert vegna óbeinna áhrifa á starfsumhverfi þeirra og erfiðara verður að nálgast upplýsingar hjá sjúkrastofnunum til að vinna úr sjálfstætt en ella.

Hæstiréttur taldi löggjafanum heimilt að takmarka fiskveiðar í fiskverndarskyni, það væri hið lögmæta markmið. Það er hins vegar erfiðara að segja til um hvað búi að baki takmörkuninni í gagnagrunnfrv. Hjá heilbrrn. hefur komið fram að kostnaðurinn við gerð gagnagrunnsins væri það mikill að enginn fáist til að gera hann nema rekstrarleyfishafinn sé einn um hituna. Það hefur komið fram hjá ráðuneytinu að sá sem eigi hugmyndina eigi að njóta forgangs. Ég rakti áðan að hluta hvernig þessum rökum um stofnkostnaðinn er hafnað í áliti Samkeppnisstofnunar. Síðarnefnda sjónarmiðið, þ.e. að sá sem eigi hugmyndina eigi að njóta forgangs teldist að mati greinarhöfundar Morgunblaðsins, ég er reyndar sammála því, örugglega ekki gott og gilt ef á reyndi fyrir dómstólum.

Sjónarmiðið sem helst mundi teljast lögmætt er þó væntanlega persónuverndin, þ.e. að ekkert vit sé í því að hafa marga gagnagrunna af þessu tagi. Gallinn er sá að löggjafinn hefur lítið sem ekkert haldið þessu sjónarmiði á lofti, segir í Morgunblaðinu. Ég vil reyndar vekja athygli á því að þetta sjónarmið hefur komið til tals í þessari umræðu. Því hefur verið haldið fram að ef margir gagnagrunnar af svipuðu tagi væru starfandi þá væri persónuverndin ótryggari en ella. Ég man ekki hvort þetta var rætt í heilbr.- og trn. eða hvort þetta hefur komið fram annars staðar, en þetta hefur vissulega verið rætt, a.m.k. á vettvangi þingsins. Ég er þeirrar skoðunar að engin rök séu fyrir þeirri fullyrðingu að halda því fram að í dreifðum gagnagrunnum sé persónuverndin eitthvað ótryggari. Ég tel þvert á móti og hef reyndar lagt fram fyrir því mörg rök, m.a. þau að óæskilegt sé að keyra saman upplýsingar um einstaklinga á einum stað.

Bæði kvótanum og rekstrarleyfi til gerðar gagnagrunns er samkvæmt frv. úthlutað til afmarkaðs hóps. Hvað kvótann áhrærir eru þó þau rök að viðtakendur eru þeir sem nutu atvinnuréttinda í greininni áður. Ekkert slíkt á við um gagnagrunninn. Hins vegar negldi löggjafinn það niður varðandi kvótann hverjir gætu nýtt sér auðlindina en í gagnagrunnsfrv. er öllum heimilt að sækja um rekstrarleyfið, eftir því sem sagt er, mismununin er ekki eins frekleg. Ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með þessari umræðu, a.m.k. held ég að það kæmi allri þjóðinni mjög á óvart, ef einhver annar en umrætt fyrirtæki, Íslensk erfðagreining, fengi þetta rekstrarleyfi. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa rökstutt að eðlilegt sé að Íslensk erfðagreining fái leyfið í nafni frumkvöðulsréttar o.s.frv. Þannig að hvað sem frv. segir um þetta þá er öll umgjörðin í kringum það unnin með þetta sjónarmið að leiðarljósi.

Í Morgunblaðinu er svolítið fjallað um meðalhófsregluna. Hæstiréttur telur, t.d. í kvótadómnum, að til þess að takmörkun atvinnufrelsis sé lögmæt verði ríkið að sýna fram á að aðrar vægari leiðir hafi ekki verið færar, að sú takmörkun sem varð fyrir valinu hafi verið nauðsynleg til að ná því markmiði sem að var stefnt. Bent er á að það er einmitt lykilatriði varðandi dóma á mannréttindasviðinu hvort svokölluð meðalhófsregla, sem Hæstiréttur beitir þarna, er uppfyllt af hálfu ríkisins. Ríkinu tókst ekki að sýna fram á þetta fyrir dómi í kvótamálinu, að meðalhófsreglunnar hafi verið gætt. Það má einnig halda því fram að löggjafanum beri að gæta að þessu sjónarmiði á undirbúningsstigi löggjafar en ekki einungis þegar að því kemur að verja gerðirnar fyrir rétti síðar meir. Það er einmitt þetta sem við höfum verið að benda á í stjórnarandstöðunni. Það er ekki nóg að segja bara: Látum reyna á þetta, við verðum þá bara kærð og það kemur þá í ljós hvort þetta stenst. Ég tel þetta vera mjög óábyrgt sjónarmið. Löggjafinn á á undirbúningsstigi að smíða frumvörp þannig að a.m.k. séu allar líkur á að þau standist stjórnarskrá og alþjóðasamninga sem við erum skuldbundin. Annað er mjög óábyrgt. Við í þinginu höfum alla aðstöðu til að láta gera úttekt á þessum málum auk þess sem bent hefur verið á það í umræðunni að fjölmargir aðilar í samfélaginu hafa bæði gefið álit og óskað eftir að gefa álit, þannig að ekki skortir vilja til að gera ítarlegar úttektir á þessum málum svo við náum að vanda sem best til verksins.

,,Það þýðir líka lítið að halda fram rökum fyrir dómi um nauðsyn takmörkunar sem engu hlutverki gegndu þegar löggjöf var undirbúin,`` segir hér í Morgunblaðinu. Þar segir líka:

,,Þarna skortir töluvert á að nægileg rök hafi komið fram við undirbúning gagnagrunnsfrumvarpsins. Þannig var strax í upphafi ákveðið að einkaréttur skyldi veittur og öllum öðrum hugmyndum hefur verið hafnað án mikillar umhugsunar eða skoðunar. Þess má geta að Samkeppnisstofnun mat það einmitt í sinni umsögn hvort þessi nauðsyn væri fyrir hendi en ESB-dómstóllinn, sem ræður mestu um skýringu Rómarsáttmálans og sambærilegra ákvæða í EES-samningnum, hefur talið að slíkt mat ætti að fara fram þegar athugað er hvort setja megi á fót einokunarstarfsemi í skjóli ríkisvalds.`` Í umræðunni hefur verið bent á að þetta mat eigi að fara fram þegar slík einokunarákvæði væru sett og Samkeppnisstofnun taldi m.a. að það væri ekki fyrir hendi.

Í Morgunblaðinu er jafnframt sagt að kvótadómurinn marki tímamót að því leyti að þar hefði almennum borgara sem átti engra sérstakra hagsmuna að gæta gefist færi á að láta reyna á tiltekna löggjöf og dregin sú ályktun að: ,,Sömu formúlu virðist mega nota um gagnagrunninn; þeir sem ekki hljóti rekstrarleyfi geti borið synjun heilbrigðisráðherra undir dómstóla.`` Og það ,,virðist því ekki jafnfjarlægt og ætla mátti að hægt væri að láta á þessa löggjöf reyna, að minnsta kosti hvað einkaréttinn áhrærir, fyrir dómstólum.`` Ég er sammála þessu mati og tel mjög líklegt að hægt væri að láta á það reyna.

Ég vil líka vekja athygli á því að Lagastofnun segir í áliti sínu, sem meirihlutatalsmenn hafa mikið vitnað til í þessari umræðu og hafa nánast haft sem sitt eina leiðarljós í þessu máli, að við veitingu einkaréttar beri að virða allar grundvallarreglur stjórnsýslu og stjórnskipunar og vekur þar sérstaka athygli á jafnræðisreglunni. Í áliti Lagastofnunar kemur þetta m.a. fram á bls. 75. Í fyrsta lagi er, eins og margoft hefur verið vakin athygli á, skoðun Lagastofnunar sú að einkaréttur til að búa til og starfrækja miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði geti samrýmst reglum þeim sem fram koma í EES-samningnum, þ.e. samkeppnisreglunum. Reyndar er jafnframt nefnt að í því felist nokkur áhætta þannig að Lagastofnun er alls ekki afdráttarlaus í þessu atriði. Síðar segir, þegar Lagastofnun dregur fram niðurstöður sínar í áliti sínu, með leyfi forseta, í 13. tölulið á bls. 98:

[22:15]

,,Við veitingu einkaréttar ber að virða almennar grundvallarreglur stjórnskipunar og stjórnsýslu, sbr. einkum jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þessar reglur leiða til þess, án tillits til skyldu til að bjóða verkið út samkvæmt lögum um opinber innkaup`` --- í sjálfu sér taka þeir ekki afstöðu til þess hvort það sé lagaskylda að bjóða verkið út, en án tillits til þess þá leiða þessar reglur til þess --- ,,að eðlilegt verður að telja að þeim sem kynnu að vilja standa að gerð og starfrækslu gagnagrunns af því tagi sem hér um ræðir, verði gefið tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að fram fari val á milli þeirra á grundvelli faglegra og málefnalegra sjónarmiða.``

Það er því vísir að því í álitsgerð Lagastofnunar sem óskað er eftir með bréfi í maí 1998 af hálfu Íslenskrar erfðagreiningar þannig að hún er a.m.k. gerð löngu áður en þessi svokallaði kvótadómur er kveðinn upp, sem lyfti mjög eins og ég dró fram áðan þessum ákvæðum um atvinnufrelsi og jafnræðisreglu, samt sem áður löngu áður en sá dómur er kveðinn upp virðist sem þeir sem sömdu álit Lagastofnunar hafi haft af því einhverjar áhyggjur að einkarétturinn bryti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Ég tel því að það sé beinlínis stoð fyrir þessari túlkun í áliti Lagastofnunar þó hún taki ekki afstöðu til þessa máls beint vegna þess líka að hún var ekki beðin um að gefa álit sitt á þessum greinum stjórnarskrárinnar. Hún var beðin um að gefa álit á því hvort þetta teldist brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs en ekki ákvæðunum um atvinnufrelsi og jafnræðisreglunni.

Ég held því að það sé alveg ljóst að það eru veruleg rök fyrir því að eitthvað hafi þessi einkaréttur vakið þessa ágætu höfunda álitsins til umhugsunar um hvort þarna væri hugsanlega eitthvað sem þyrfti að huga að. Í raun og veru eru alveg skýr tilmæli af þeirra hálfu að eiginlegt val þurfi að fara fram á grundvelli faglegra og málefnalegra sjónarmiða. Fróðlegt væri að heyra það frá hv. frsm. meiri hlutans hvernig ríkisstjórnin hyggist standa að þessu vali. Það liggur a.m.k. ljóst fyrir að ekki eigi að fara fram útboð og þá spyr ég: Hvernig hyggst heilbrrn. eða ríkisstjórnin standa að þessu vali á milli þeirra sem vilja hugsanlega spreyta sig á þessu verkefni á grundvelli faglegra og málefnalegra sjónarmiða ef ekki á að gera það með útboði?

Það eru fleiri sem hafa áhyggjur og telja sýnt að hugmyndin um þetta svokallaða galdratæki, sem var farið af stað með í upphafi, verði aldrei að veruleika. Hvorki muni þetta tæki virka eða gera kraftaverk í stýringu heilbrigðiskerfisins né í því að lækna sjúkdóma eins og átti að vera meginhugmyndin á bak við þetta. Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég hef marglýst yfir, að þetta verði aldrei að veruleika hvort sem frv. fer í gegnum þingið eða ekki. Það sé svo margt sem hafi verið gert rangt frá upphafi í þessu máli og umfjöllunin öll og meðferð þess frá upphafi sé þannig að þetta tæki geti aldrei orðið eins og það átti að verða.

Umfjöllunin um áskorun lækna á Alþingi að samþykkja ekki fyrirliggjandi frv. um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði --- það eru 108 læknar sem sendu alþingismönnum þessa áskorun í gær --- það segir um það í Morgunblaðinu í dag að læknarnir Sigurður Björnsson og Tómas Zoega segi í bréfi sem fylgir áskoruninni að andstaða við frv. sé svo mikil að ef frv. verði samþykkt í því formi sem það er í nú verði gagnagrunnurinn aldrei að veruleika. Sigurður segir síðan í samtali við Morgunblaðið að mörg siðfræðileg og lagaleg álitaefni séu uppi og bendir m.a. á álit Samkeppnisstofnunar og Lagastofnunar máli sínu til stuðnings. Þá komu auk þess fram mjög alvarlegar aðvaranir í bréfi samtaka tölvunefnda Evrópu til dómsmrh. frá því seint í sumar.

Hann bendir á það hér að það verði að gæta jafnræðis og frelsis í landinu:

,,Mér finnst illa komið fyrir stærsta flokki landsins, sem margir hafa stutt, að hann skuli beita sér fyrir þessari takmörkun á frelsi manna á Íslandi og veita einokun eða sérrekstrarleyfi í tólf ár til fyrirtækis, sem er íslenskt til að byrja með en það veit enginn hvað verður þegar þetta fyrirtæki verður komið á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum og menn geta farið að kaupa þetta á Wall Street. Þá ræður enginn örlögum þessarar þjóðar. Þetta snertir því fullveldi þjóðarinnar,`` --- segir Sigurður Björnsson í viðtali við Morgunblaðið.

Hann segist líka hafa tjáð sjúklingum sínum að ástæðulaust væri fyrir þá að hafa áhyggjur því hann muni ekki senda upplýsingar um þá inn í gagnagrunn nema þeir gefi heimild til þess eða óski sérstaklega eftir því.

,,Ég mun ekki brjóta læknaeiðinn, ég mun ekki brjóta læknalög og ég mun ekki brjóta lög um réttindi sjúklinga með því að senda sjúkraskýrslurnar mínar frá mér svo fólk geti pikkað út úr þeim einhverjar upplýsingar sem ég veit ekki um, hugsanlega í andstöðu við skoðanir sjúklinganna,`` --- sagði Sigurður Björnsson.

Hann er ekki einn um þá skoðun að telja þessa meðferð á upplýsingum um heilsufar fólks stríða gegn siðareglum, læknaeiðnum, læknalögum og t.d. lögum um réttindi sjúklinga. Það hefur verið margítrekað í umræðunni.

Kannski er ástæða til að velta því fyrir sér af hverju sé verið að þessu --- ef þetta er eins og ég vil reyndar meina og einhverjir fleiri --- að þetta verði aldrei það tæki sem það átti að verða. Ég er hissa á því ef það fyrirtæki, sem hefur verið mest í umræðunni um þetta rekstrarleyfi, er ekki búið að átta sig á því eða forsvarsmenn þess. Maður veltir því fyrir sér hvers vegna sé verið að þrýsta svona mikið á um þetta. Því hefur verið haldið fram af hálfu rekstrarleyfishafans væntanlega að samþykkt þessa frv. og framkvæmd þessarar hugmyndar sé alls ekki nauðsynleg fyrir fyrirtækið, það muni starfa eftir sem áður. Nú þegar eru starfandi þarna eitthvað í kringum 200 starfsmenn og fyrirtækið virðist ganga vel. Ég undrast því svolítið í sjálfu sér að svona mikil áhersla skuli lögð á að ná frv. í gegn, ekki síst í ljósi þeirrar neikvæðu umfjöllunar sem hefur átt sér stað víða erlendis í tengslum við málið. Eitthvað mikið hlýtur að vera í húfi fyrir því að þessi hugmynd fari í gegn úr því að svona mikil áhersla er lögð á það. Hvort fjárhagsleg sjónarmið eru að baki, hugsanlega þau að þolinmæði fjárfesta sé ekki endalaus og þeir í raun og veru þrýsti á að þetta mál fari í gegn, ég veit það ekki.

Ég tel það orðið algjörlega ljóst að hugmyndin geti aldrei orðið það tæki sem til var ætlast og ég sé ekki hver það er þá eftir allt sem ætti að hafa svona mikla hagsmuni af því að þetta verði framkvæmt. Er þá ekki bara skynsamlegra að hvíla málið, er það bara ekki best fyrir alla aðila að hvíla málið? Byrja e.t.v. á hugmyndinni algjörlega frá upphafi, skoða aðrar hugmyndir í leiðinni og eyða þá kannski um leið --- hugsanlega yrði lendingin sú sama, ég veit það ekki --- þeirri tortryggni og þeirri gífurlega hörðu andstöðu sem er við þetta mál víðs vegar í samfélaginu og víðs vegar um heiminn?

Ég teldi mjög mikilvægt ef það yrði gert því, eins og ég segi, ég held að engum sé akkur í því að þetta mál fari í gegnum þingið með þessum ósköpum eins og það hefur gengið í raun og veru allt frá upphafi.