Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 11:37:35 (1914)

1998-12-10 11:37:35# 123. lþ. 37.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[11:37]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hér komu ýmsar spurningar fram. Ég svaraði þeim öllum í ræðu minni í gær en það eru nokkur atriði sem mig langar að andmæla, sérstaklega því að stjórnarmeirihlutinn sé í einhverri sérstakri gíslingu hjá Íslenskri erfðagreiningu og okkur sé misbeitt af hálfu þess fyrirtækis. Það er bara alrangt og ég vísa því á bug. Það fyrirtæki kom til okkar í heilbrn. eins og fjölmargir aðrir aðilar og ég spyr: Á ég þá að halda því fram að þeir sem eru andsnúnir frv. og hafa talað hér í tvo daga séu í einhverri sérstakri gíslingu þeirra vísindamanna sem hafa setið hér á pöllunum allan tímann? (ÖJ: Þeir vilja hlusta á ...) Ég held því að sjálfsögðu ekki fram. (Gripið fram í.) Síðan sagði hv. þm. Össur Skarphéðinsson að stjórnarflokkarnir væru sérstaklega að gæta einhvers ójafnræðis og nefndi til þrjú atriði og að við værum að gefa fáum útvöldum hálendi Íslands, ég vil bara algerlega mótmæla því. Við erum einmitt að tryggja að það verði í ríkiseign, það verða þjóðlendur. Allt miðhálendið verður í eigu minni og í eigu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og annarra Íslendinga. Kvótinn var dreginn líka inn. Ég vil bara benda á að allir stjórnmálaflokkar á Íslandi, nema e.t.v. Kvennalistinn, bera ábyrgð á kvótakerfinu. Hver einasti stjórnmálaflokkur, líka Alþfl. Og síðan var sagt og klykkt út með því að lokum að við værum að gefa heilsufarsupplýsingar Íslendinga. Það er ekki rétt og hv. þm. Össur Skarphéðinsson veit betur. Við erum ekki að gefa heilsufarsupplýsingar Íslendinga. Þær verða áfram á öllum sjúkrahúsum eins og þær eru í dag en við ætlum að veita eitt sérleyfi til að búa til nýtt rannsóknartæki, þannig að hægt sé að rannsaka okkar ágætu upplýsingar sem við nú þegar eigum okkur til framfara í læknisþjónustu.