Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 11:41:20 (1916)

1998-12-10 11:41:20# 123. lþ. 37.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[11:41]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi litið í einhverja kúlu því hann gerist mjög spádómslegur. Ég hef bara aldrei heyrt annað eins. Hér eru dregin fram fjölmörg atriði og sagt að þeim ætlum við að breyta. Það er bara ekki rétt.

Við höfum sagt að við erum tilbúin til að taka málið til nefndar milli 2. og 3. umr. m.a. til að skoða mál sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur sérstaklega bent á, þ.e. að taka aðgangsnefndina út og skoða hvernig á að koma innlendum vísindamönnum að þessum grunni með öðrum hætti. Það ætlum við að skoða með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Síðan hef ég og fleiri sagt hér að skoða þurfi hvernig á að fara með erfðafræðiupplýsingarnar og setja þær í ákveðið ferli sem tölvunefnd samþykkir til að tryggja persónuvernd. Þetta tvennt höfum við sagt mjög ákveðið úr ræðustóli og þetta tel ég að við eigum að skoða milli 2. og 3. umr. (Gripið fram í: Af hverju gerirðu það?) Það er ekkert búið að ákveða neitt um hvað á að gera eftir 12 árin eða með apótekin. Ef hv. þm. vill skulum við skoða það í nefndinni milli 2. og 3. umr.