Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 11:49:40 (1923)

1998-12-10 11:49:40# 123. lþ. 37.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[11:49]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ósk mín til hæstv. forseta beindist að því að fara fram á það við hann að hann kannaði hvort ekki væri hægt að taka þetta mál út af dagskrá vegna þess að verið er að knýja fram algerlega nýtt mál, með algerlega nýjum upplýsingum, allt annað frv. en hér hefur verið til meðferðar. Ég tel að það séu svo byltingarkenndar breytingar á frv. sem eru á döfinni samkvæmt lýsingu þingmanna, sem þekkja málið miklu betur en ég, að auðvitað verði að taka í þetta miklu meiri tíma og nýjan tíma. Eðlilegast væri að taka málið í gegnum þrjár umræður í þinginu á nýjan leik.

Það er rétt að í nótt varð að niðurstöðu að við reyndum að ljúka málinu klukkan tvö í dag. Þá lá ekki fyrir að menn ætluðu að koma með nýtt mál til 3. umr. (Gripið fram í: Jú, jú, það var löngu búið að segja það, Svavar.) Það lá þá ekki fyrir. (Gripið fram í.) Það lá þá ekki fyrir. Það þýðir ekkert að segja ,,víst`` í þingsal. (Gripið fram í.) ,,Víst`` er orðalag sem gildir ekki mikið í þingsal og hvergi kveðið á um í þingsköpum. Veruleikinn er sá að þetta lá ekki fyrir, hæstv. forseti, frá neinum, m.a. ekki frá hæstv. heilbrrh. í umræðu sem við áttum við hana í nótt í forsetaherbergi að til stæði að breyta málinu í grundvallaratriðum. Það er þannig og það þýðir ekki að reyna að koma inn með alveg nýja hluti með þeim hætti sem hv. stjórnarlið er að reyna að gera. Mér er hins vegar ljóst að forseta er nokkur vandi á höndum hvernig taka eigi á þessu máli og ég skil stöðu hans en ég segi: Þessar upplýsingar, þessi orðaskipti og þessi frammíköll hv. þm., varaformanns heilbrn., kalla á það að umræðan um málið og meðferð þess verði ákaflega ítarleg í hv. heilbrn. Það er ekki hægt að sætta sig við neitt minna.