Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 12:59:22 (1935)

1998-12-10 12:59:22# 123. lþ. 37.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[12:59]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég kemst nú ekki hjá því að gera athugasemdir við samanburð hæstv. ráðherra við Hvalfjarðargöngin og fjármögnun þeirra. Sá samanburður er alveg gjörsamlega út í hött. Þar er um algjörlega ósambærilega hluti að ræða og einmitt ekki valið gott dæmi þar sem þáttur handhafans er í raun og veru hrein verktaka. Ríkið á framkvæmdina og fær hana aftur. Tíminn sem rekstraraðilinn hefur ræðst af því hve langan tíma tekur að borga upp framkvæmdina og búið. Gangi það vel þá skilast hún fyrr til ríkisins o.s.frv.

Í öðru lagi þá þakka ég hæstv. ráðherra fyrir að vekja athygli á því að efasemdir mínar við þetta frv. hafa farið vaxandi. Ég lýsti hér í ræðu minni hvernig ég reyndi að skoða af opnum hug hvort leiðir fyndust til að fara í þetta mál á annan hátt en hér var lagt til. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það hafi ekki tekist og langt því frá. Efasemdir mína hafa vaxið þeim mun meira sem ég hef skoðað málið.

Er það ekki einmitt gott? Er það ekki þannig sem þetta á að gerast, að þingmenn skoði hlutina, kynni sér þá og taki svo afstöðu en séu ekki fyrir fram sannfærðir um hlutina?

Ég þakka því hæstv. ráðherra fyrir hrósið. Ég segi þá bara að það er ekki stórmannlegt af hæstv. ráðherra að reyna að lesa einhvern allsherjarstuðning við grundvallaratriði málsins út úr ræðum manna hér eftir þessa löngu umræðu þar sem frv. hefur meira og minna verið tætt niður til grunna.