Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 14:00:36 (1953)

1998-12-10 14:00:36# 123. lþ. 37.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[14:00]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Flest af því sem hv. þm. spurði um hefur verið hér til umfjöllunar undanfarna daga og verið svarað áður. Ekki þessu síðastnefnda sem hv. þm. spurði um, þ.e. hvort þeir sem skrifuðu undir mótmælaskjöl hefðu verið kallaðir sérstaklega til. Auðvitað höfum við ekki kallað hvern og einn þeirra fyrir okkur og munum að sjálfsögðu ekki gera það, en þeirra rök liggja fyrir.

Varðandi það hvort einhver plögg liggi í ráðuneytinu sem heilbr.- og trn. hefur ekki fengið þá liggja öll gögn opin fyrir heilbr.- og trn. og hafa ávallt gert. Þar eru engin leyniplögg inni varðandi þetta mál.

Varðandi það að dreifðir gagnagrunnar séu hagkvæmari og hvort við höfum farið í skoðun á því í heilbrrn. þá skoðuðum við hvort fjárhagslegur grundvöllur væri fyrir dreifðum gagnagrunnum og komumst að þeirri niðurstöðu að svo er ekki.

Hv. þm. spyr hver séu rökin fyrir því að gefa 12 ára sérleyfi. Rökin fyrir því eru þau að það tekur a.m.k. fjögur ár aðeins að byggja upp grunninn, áður en hægt verður að nýta hann á nokkurn hátt. Það verður því fyrst kannski eftir sex ár hægt að nýta fullkomlega gögn úr grunninum þannig að enginn leggur náttúrlega í slíkan kostnað, sem hér hefur margsinnis verið rætt um, án þess að hafa einhverja tryggingu fyrir því að samkeppnisaðilar geti ekki gripið þar inn í.

Nú sé ég að það blikkar á mig ljósið. En að öðru leyti almennt um það hvort þetta brjóti í bága við samþykktir sem við höfum gert á erlendri grund, þá teljum við svo ekki vera.