Tryggingagjald

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 14:38:01 (1967)

1998-12-10 14:38:01# 123. lþ. 37.3 fundur 228. mál: #A tryggingagjald# (lífeyrissparnaður launamanns) frv. 148/1998, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[14:38]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekkert á móti þessari aðgerð sem slíkri. Hún er vel meint og góð. Ég er á móti því hvað færslurnar eru margar og litlar, hvað þetta gerir kerfið allt miklu flóknara og hvað það kostar mikið að upplýsa alla landsmenn, allt atvinnulífið um þetta. Það er ekki nóg að upplýsa endurskoðendur. Það þarf að upplýsa fyrirtækin. Það þarf að upplýsa launþegana um þetta. Allir þurfa að vita af þessu. Þegar maður sér framkvæmd skattalaga yfirleitt og allt það, ég vil segja rugl í kringum það að fá upplýsingar hjá skattstjórum um einföldustu atriði þá líst mér nú ekki á þetta. Við erum að tala um það að á starfsævinni, í 40 ár, verði sendar 500 færslur til að bæta lífeyrisréttindin um þessi 2% sem hv. þm. nefndi og þessi bót á lífeyrisrétti kemur ekki á nokkurn hátt frá guði almáttugum. Nei, launþeginn sjálfur á að borga þetta. Hann borgar þessi 2% sjálfur úr eigin vasa. Það er sparnaðurinn. Ég held því að skorta muni á upplýsinguna og þetta muni flækja kerfið. Svo þarf launþeginn að borga þetta sjálfur.