Tryggingagjald

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 14:42:31 (1970)

1998-12-10 14:42:31# 123. lþ. 37.3 fundur 228. mál: #A tryggingagjald# (lífeyrissparnaður launamanns) frv. 148/1998, SvG
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[14:42]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. hv. efh.- og viðskn. um þetta mál með fyrirvara. Fyrirvarinn stafar af því að þau ákvæði sem þarna eru um breytingu á innheimtu tryggingagjalds eru svo flókin og svo dýr í framkvæmd. Að því leytinu er ég sammála hv. þm. Pétri Blöndal um að skynsamlegra hefði verið að fara aðra leið. Hins vegar styð ég efni málsins miðað við allar aðstæður. En ég tel ástæðu til að vekja athygli á því hvað málið er gert ótrúlega flókið í útfærslu samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir og að því leyti, eins og ég sagði, tek ég undir ábendingar hv. þm. Péturs Blöndals, minni hluta efh.- og viðskn.

Í umsögn Vinnuveitendasambands Íslands um þetta mál, sem er dagsett 2. desember sl., er farið rækilega yfir málið og bent á að skynsamlegt sé miðað við núverandi aðstæður að hvetja til þess að heimildin til viðbótarlífeyrissparnaðar með skattfrestun verði nýtt af sem flestum.

Í athugasemdum Vinnuveitendasambandsins segir, með leyfi forseta:

,,Meginefni frumvarpsins er að ríkisvaldið gefi eftir hluta af tekjum af tryggingagjaldi til að fjármagna uppbót á eigin framlag launamanna og sjálfstætt starfandi fólks til viðbótarlífeyrissparnaðar. Launamaður sem ákveður að greiða aukalega allt að 2% af launatekjum í lífeyrissjóð fær samkvæmt lögunum uppbót af tekjum ríkissjóðs af tryggingagjaldi sem nemur 10% af iðgjaldi launamanns, þó mest 0,2% af tekjum.``

Þetta les ég upp vegna þess að þetta er góð skýring á efni málsins. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Þótt efnið sé þannig tiltölulega einfalt og markmiðin skýr þá gerir frumvarpið ráð fyrir ótrúlega flókinni framkvæmd. Þar er miðað við að þessum fjármunum verði komið til móttakenda fyrir milligöngu launagreiðanda sem mánaðarlega dragi fjárhæð frá því tryggingagjaldi sem þeir ættu að standa skil á, fjárhæð sem svarar til 1/10 hluta þeirra viðbótariðgjalda sem starfsmenn hans fela honum að draga af launum.

Hér er einfalt mál gert afar flókið í framkvæmd og þúsundum atvinnurekenda er þvælt inn í samskipti launþega við lífeyrissjóði, fjármálafyrirtæki og tryggingafélög sem bjóða viðbótarvalkosti í lífeyrismálum.``

Undir þessi sjónarmið Vinnuveitendasambandsins tek ég. Þetta mál er gert alveg ótrúlega flókið og ég er alveg sannfærður um að það verður erfitt fyrir mjög marga litla atvinnurekendur sem eru með tiltölulega einfaldan rekstur að ganga frá þessum málum þannig að ávinningurinn fyrir sparandann, launamanninn, skili sér örugglega 100%.

[14:45]

Ég held þess vegna að skynsamlegra hefði verið að fara aðra leið í þessum efnum, herra forseti. Í umsögn Vinnuveitendasambandsins er varað mjög eindregið við þeim flækjum og mistökum sem er augljóslega boðið heim þegar þúsundir smárra og stórra fyrirtækja eiga að sundurgreina af hvaða stofni eigi að reikna uppbót á lífeyrinn og hversu mikið megi draga frá skilum tryggingagjalds á móti eins og hér segir.

Í umsögn Vinnuveitendasambandsins er einnig gagnrýnt harðlega að ónógur fyrirvari sé varðandi þetta mál. Ég vek sérstaklega athygli á því að nú er kominn, ef ég man rétt, 10. des. og gert er ráð fyrir því að þetta kerfi taki gildi núna um áramót. Ég er alveg sannfærður um að það er allt of seint sem við afgreiðum þetta mál með hliðsjón af því að kerfið taki gildi um áramótin.

Með hliðsjón af þessu leggur Vinnuveitendasamband Íslands til að stuðningur ríkissjóðs við myndun viðbótarlífeyrisréttinda launamanna verði ekki háður því að atvinnurekandi innheimti iðgjald af launamanni heldur verði uppbótin á iðgjaldsgreiðslur látin ganga beint frá ríkissjóði inn á lífeyrisreikning viðkomandi samkvæmt upplýsingum á skattframtali. Þannig verði komist hjá margháttuðum mistökum við uppgjör og skil tryggingagjalds. Undir þetta tek ég.

Í umsögn ríkisskattstjóra eru nákvæmlega sams konar áhyggjur, orðaðar með þeirri varkárni sem tíðkast þegar embættismenn tala við ráðherra sinn. Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 1. des. 1998, er varað við því að verið sé að fara inn á aðrar leiðir en heppilegt hefði verið og venjulega hefur verið gert. Síðan segir: ,,Lítill sem enginn tími er til undirbúnings þessa máls.``

Síðan segir ríkisskattstjóri, með leyfi forseta:

,,Slíkt kostar þó aukna vinnu og krefst fjárútláta vegna breytinga á upplýsingakerfinu. Telur ríkisskattstjóri að áætlun sú er fram kemur frá fjárlagaskrifstofu um kostnaðarauka ríkissjóðs sé vægast sagt afar varkár og í lægra lagi.``

Herra forseti. Ég vildi lesa upp umsagnir bæði frá Vinnuveitendasambandinu og ríkisskattstjóra vegna þess að þær umsagnir eru báðar vandaðar og góðar og full ástæða til að hlusta á þær. Ef menn eru á annað borð í þingnefndum að senda út og biðja um umsagnir á auðvitað að taka mark á þeim umsögnum sem eru bersýnilega vandaðar og settar fram með þeim hætti sem þær tvær eru sem ég hef hér vitnað til.

Alþýðusamband Íslands sendi umsögn um þetta mál, dags. 2. des. 1998, þar sem farið er rækilega yfir málið. Þar er sérstaklega fjallað um þann þátt málsins sem lýtur að breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og Alþýðusambandið segir síðan í umsögn sinni, með leyfi forseta:

,,Alþýðusamband Íslands er almennt þeirrar skoðunar að það eigi að vera fæst undanþágu- og sérákvæði í skattalöggjöfinni og telur að frávik frá þessu séu einungis réttlætanleg við sérstakar aðstæður, t.d. að jafna tekjur og aðstæður fólks. Alþýðusamband Íslands telur að heimild til frádráttar frá gjaldstofni almenns tryggingagjalds muni valda auknum kostnaði við skattframkvæmd. Þau áhrif sem 0,2% mótframlag launagreiðanda munu hafa á sparnaðarvilja launafólks eru varla nógu mikil til að réttlæta þennan kostnað. Þá er rétt að benda á að atvinnulífið mun verða fyrir kostnaðarauka vegna nauðsynlegra breytinga á hugbúnaði sem notaður er við launaútreikning.``

Þetta var ekki umsögn Vinnuveitendasambandsins heldur Alþýðusambands Íslands. Þetta var heldur ekki lesið upp úr ræðu hv. þm. Péturs Blöndals heldur upp úr umsögn Alþýðusambands Íslands. Alþýðusambandið varar við því að frv. verði að lögum með þeim hætti sem það er, m.a. með hliðsjón af þeim ábendingum sem hér hafa verið nefndar.

Bandalag starfsmanna ríkis og bæja sendi frá sér umsögn um þetta mál, sem er dags. 2. des. 1998, og þar segir svo, með leyfi forseta:

,,BSRB lítur svo á að lækkun tryggingagjalds launagreiðanda geti verið jákvæð sé hún nýtt sem mótframlag vegna viðbótarlífeyrissparnaðar. Verði þessi breyting gerð telur BSRB nauðsynlegt að hún sé skilyrt: Eftir tvö ár verði skoðað hverjir það eru sem nýta sér þetta fyrirkomulag þannig að komið verði í veg fyrir þá annmarka sem tíundaðir eru hér að ofan.`` --- Það er þá vitnað til fyrri hluta umsagnarinnar. ,,Ef það sýnir sig að svo er ekki þá má eflaust nýta skattaniðurgreiðsluna, sem áætlað er að skerði tekjur ríkissjóðs á næsta ári um 450 milljónir, betur til að auka þjóðhagslegan sparnað með t.d. niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs.``

Þetta var úr umsögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Síðan er ég með fleiri umsagnir eins og frá Samtökum iðnaðarins sem ég ætla ekkert að fara að lesa nema niðurlagið þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Að öllu samanlögðu er það mat Samtaka iðnaðarins að fara megi mun einfaldari og skilvirkari leið að settu marki en felst í frumvarpsdrögunum. Skattafslátturinn ætti síðan að ganga beint inn á lífeyrissparnaðarreikning viðkomandi launþega í kjölfar álagningar enda hafi hann í skattframtali sínu sýnt fram á að hann hafi uppfyllt skilyrði um aukinn lífeyrissparnað.``

Þetta var úr umsögn Samtaka iðnaðarins og ég gæti svo lesið fleiri umsagnir en ætla ekki að gera hér, herra forseti.

Með hliðsjón af þessu öllu sé ég mér ekki annað fært en skrifa upp á málið með fyrirvara. Ég held að þessi aðferð sé svo flókin að hún geti skaðað markmið málsins. Ég veit það ekki fyrir víst en ég óttast að svo sé og þess vegna tel ég að við ættum að staldra við og ég hefði talið skynsamlegra að hv. efh.- og viðskn. hefði gefið sér aðeins lengri tíma til að skoða málið, jafnvel í því skyni að breyta aðferðinni, t.d. í hátt við það sem bent er á í umsögnum, bæði Samtaka iðnaðarins og Vinnuveitendasambandsins.

Í máli hv. formanns efh.- og viðskn., hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, áðan kom fram að hann teldi nauðsynlegt af öðrum ástæðum, ef ég tók rétt eftir, að málið kæmi til meðferðar milli 2. og 3. umr. í nefndinni vegna þess að fram hefðu komið ábendingar um vissar lagfæringar á málinu og eftir að nefndin lauk umfjöllun um það. Ég tel að með hliðsjón af því sé óhjákvæmilegt að þetta mál verði skoðað aðeins betur í nefndinni. Ég mun óska þar eftir því að á fund nefndarinnar verði kallaðir fulltrúar Alþýðusambandsins, BSRB og Vinnuveitendasambandsins til að við getum áttað okkur á því í sameiningu hvort ekki er hægt að ljúka málinu í betri sátt en nú eru horfur á.