Tryggingagjald

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 15:01:12 (1973)

1998-12-10 15:01:12# 123. lþ. 37.3 fundur 228. mál: #A tryggingagjald# (lífeyrissparnaður launamanns) frv. 148/1998, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[15:01]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Vandinn er sá að málið er skilyrt. Víða í umsögnum er bent það, t.d. í greinargóðri umsögn Vinnuveitendasambandsins sem ég hef áður vitnað til, með leyfi forseta:

,,Launamenn virðast því aðeins geta notið hennar [þ.e. uppbótarinnar] að þeir hætti beinum samskiptum við lífeyrissjóð sinn og biðji atvinnurekandann að annast þessa greiðslumiðlun.``

Í raun þarf nýja ákvörðun, sjálfstæða nýja ákvörðun til þess að menn geti notað sér þessa sérstöku 10% uppbót á lífeyrisiðgjald sitt. Ég hef áhyggjur af því vegna þess að atvinnulífið hér á Íslandi er margþætt og flókið. Atvinnurekendur eru mismunandi og þúsundir þeirra, sem betur fer liggur mér við að segja, eru smáir með einföld bókhaldskerfi sem ná kannski ekki utan um þessa hluti. Stundum ætti það auðvitað að vera mikið betra. Ég tel að á þessa tegund atvinnurekenda og þar með launamennina sem vinna hjá þeim séum við að leggja umstang sem er óþarft eins og staðan er. Það er mín skoðun og ég sé ekki betur en Alþýðusambandið, BSRB og aðrir taki undir þau sjónarmið.

Ég endurtek það að ég áskil mér allan rétt til þess að skoða þetta betur í nefndinni. Ég heyri hins vegar á hæstv. fjmrh. að telur að svo geti farið að þetta skili ekki því sem til er ætlast og býður upp á það af sinni hálfu að málið verði fljótlega endurskoðað. Mér finnst að sú yfirlýsing sé í sjálfu sér mikilsverð en ég harma að við skulum vera komin svona langt með þetta litla mál án þess að hafa náð um það betri sátt. Það náðist mjög góð sátt um lífeyrissjóðina í fyrra eða hittiðfyrra, ekki síst fyrir tilstuðlan hv. efh.- og viðskn. Ég hefði viljað að þetta hefði líka verið gert í sátt. Þetta er svo einfalt að það tekur því ekki að spilla góðri heildarsátt með jafnlitlu máli og þessu.