Stimpilgjald

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 15:13:47 (1980)

1998-12-10 15:13:47# 123. lþ. 37.4 fundur 151. mál: #A stimpilgjald# (undanþágur frá gjaldi) frv. 157/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[15:13]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil fagna því sem fram kom í máli formanns efh.- og viðskn. þar sem hv. þm. minntist á félagslega húsnæðiskerfið og að efh.- og viðskn. mundi taka málið til skoðunar með það í huga hvort verið væri að hrófla við einhverju sem þar hefur verið. Þetta tel ég mjög mikilvægt að nefndin skoði.

Eins og málið blasir við mér er þarna nokkur breyting. Með tilkomu Íbúðalánasjóðs eru hér undanþegin stimpilgjöldum, skv. 1. gr. þessa frv., skuldabréf sem gefin eru út til Íbúðalánasjóðs vegna viðbótarláns samkvæmt lögum um húsnæðislán, sem auðvitað er mjög jákvætt. Í félagslega kerfinu var allt lánið, þ.e. 90% lánið, undanþegið stimpilgjaldi. Með þeirri breytingu sem gerð var á húsnæðislöggjöfinni koma 65% lánsins gegnum húsbréf en fasteignabréf vegna húsbréfa bera stimpilgjöld.

[15:15]

Í útreikningum sem við gerðum á sínum tíma kom í ljós að húsbréf á íbúð upp á 5,5 millj. kr. báru stimpilgjöld sem voru 57 þús. kr. Ef um var að ræða íbúð upp á 7,5 millj. kr. þá bar sá hluti sem var húsbréf, stimpilgjöld upp á 78 þús. kr.

Sama gildir um aukalánaflokka sem falla nú undir Íbúðalánasjóð. Þar eru t.d. lán til byggingar heimila fyrir aldraða, dagvistunarstofnana fyrir börn og aldraða og sérstök lán til einstaklinga með sérþarfir. Eftir þessa breytingu munu þessi lán koma, að því er ég best veit, gegnum húsbréf sem bera stimpilgjöld. Þau komu áður gegnum beinar lánveitingar beint úr félagslega kerfinu og báru ekki stimpilgjöld. Sama held ég gildi varðandi skuldbreytingarlán, svokölluð greiðsluerfiðleikalán. Þau báru ekki stimpilgjöld áður en þar sem þau verða með húsbréfum eftir þessa breytingu og engin breyting er að því er varðar stimpilgjöld af húsbréfum, munu þau einnig bera stimpilgjöld. Að því leyti er hér um töluverðar breytingar að ræða.

Þess vegna fagna ég því sem fram kom hjá formanni nefndarinnar enda í samræmi við það sem hæstv. félmrh. sagði um húsnæðismálin við umræður á síðasta þingi. Hann sagði að fólk ætti að vera jafnsett eftir sem áður þótt þessi breyting yrði á húsnæðiskerfinu, þ.e. varðandi kostnað af lántöku og ekki væri um neinar íþyngjandi aðgerðir að ræða. Það sem hv. formaður nefndarinnar nefnir hér að verði tekið til skoðunar er í samræmi við það sem hæstv. ráðherra félagsmála sagði á sínum tíma um þessa breytingu.