Vegabréf

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 15:21:16 (1981)

1998-12-10 15:21:16# 123. lþ. 37.5 fundur 231. mál: #A vegabréf# (heildarlög) frv. 136/1998, Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[15:21]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. allshn. á þskj. 420 og 421 um frv. til laga um vegabréf. Nefndin fjallaði um málið á fundum sínum og fékk til viðræðna við sig fulltrúa dómsmrn. og útlendingaeftirlitsins. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá ríkislögreglustjóra, útlendingaeftirliti, lögreglustjóranum í Reykjavík og Sýslumannafélagi Íslands.

Með frv. er lagt til að sett verði ný heildarlög um vegabréf í stað núgildandi laga sem eru frá árinu 1953. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir nokkrum breytingum. Þær miða fyrst og fremst að því að gera útgáfu vegabréfa öruggari og íslensku vegabréfin tryggari.

Í fyrsta lagi er lagt til að útgáfa vegabréfa verði í höndum ríkislögreglustjóra í stað einstakra lögreglustjóra og skal hann meta hvort umsækjandi uppfylli skilyrði til að fá útgefið vegabréf. Þó verður áfram unnt að sækja um vegabréf hjá öllum lögreglustjórum. Einnig er gert ráð fyrir að ríkislögreglustjóri komi á fót neyðarþjónustu þannig að breytingin leiði ekki til vandræða fyrir ferðamenn sem þurfa á vegabréfi að halda með litlum fyrirvara. Í tengslum við þessa breytingu er ríkislögreglustjóra ætlað að koma á fót og halda skrá yfir vegabréf þar sem skráð verður t.d. hverjir hafa vegabréf og fram koma upplýsingar um glötuð og fölsuð vegabréf.

Önnur breyting sem lögð er til í frumvarpinu felst í því að vegabréf gildi framvegis aðeins fyrir einn einstakling og er þar með lagt til að ekki verði lengur hægt að skrá barn yngra en 15 ára í vegabréf náins aðstandanda. Breytingin er m.a. lögð til í því skyni að fyrirbyggja að börn verði numin á brott eða fari úr landi ásamt foreldri sem ekki hefur forsjá barns en hefur nafn þess í vegabréfi sínu. Loks er lagt til að lögfestar verði reglur um afturköllun vegabréfa.

Nefndin fjallaði m.a. um kostnað og gjald fyrir útgáfu vegabréfa. Gjald fyrir útgáfu vegabréfa til útlanda er ákveðið í lögum um aukatekjur ríkissjóðs og er það nokkuð hærra en framleiðslu- og umsýslukostnaður. Með samþykkt frumvarpsins er þó ljóst að nokkur kostnaðarauki verður á næstu árum, m.a. vegna útgáfu tölvulesanlegra vegabréfa og uppsetningar skrár um vegabréf sem ríkislögreglustjóra er ætlað að halda.

Telja verður brýnt að setja ný lög um vegabréf með skýrari reglum og mælir nefndin með því að frv. verði samþykkt með breytingum sem fram koma á þskj. 421. Þær breytingar sem nefndin leggur til eru eftirfarandi:

,,Í fyrsta lagi eru lagðar til orðalagsbreytingar á 2. mgr. 5. gr. Lagt er til að orðið refsivist verði fellt brott úr ákvæðinu og orðið fangelsisrefsing sett í staðinn. Breytingin er í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á almennum hegningarlögum og refsiákvæðum annarra laga á 122. þingi þar sem ákvæði um varðhaldsrefsingar og atriði tengd því voru felld brott úr lögunum.

Þá eru lagðar til orðalagsbreytingar á 1. mgr. 6. gr. sem miða að því að gera ákvæðið skýrara. Þar er fjallað um að aðeins einn geti verið skráður í hvert vegabréf.

Einnig er lagt til að gerðar verði breytingar á aldursviðmiði í 2. mgr. 6. gr. og því breytt úr 16 árum í 18 ár. Eðlilegt þykir að miða við sama aldur og í 4. gr. þar sem kveðið er á um að við útgáfu vegabréfs til barns undir 18 ára aldri skuli liggja fyrir samþykki þess eða þeirra sem fara með forsjá barns. Einnig er breytingin í samræmi við ákvæði lögræðislaga og þá almennu skilgreiningu að um börn sé að ræða til 18 ára aldurs.

Loks er lögð til breyting á ákvæðum 2. mgr. 6. gr. varðandi gildistíma vegabréfa barna. Þar er lagt til að vegabréf barna gildi í fimm ár eins og nú er í stað þriggja ára eins og lagt er til í frumvarpinu. Barst nefndinni ábending um að núgildandi regla hefði reynst vel og þykir því óþarft að breyta henni.

Undir nál. skrifa Sólveig Pétursdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Kristján Pálsson, Kristín Halldórsdóttir, Jón Kristjánsson, Árni R. Árnason og Hjálmar Jónsson.