Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 15:52:08 (1990)

1998-12-10 15:52:08# 123. lþ. 37.7 fundur 321. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999# (breyting ýmissa laga) frv. 158/1998, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[15:52]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Hér er hefðbundið frv. á ferðinni í tengslum við fjárlagafrv. Það er rétt hjá hæstv. forsrh. að frv. er minna umleikis en oft áður. Hann þakkaði það árangri í ríkisfjármálum. Hann má hafa þá skoðun á málunum ef hann vill en meginástæðan er önnur og hún er sú að nú vinnum við eftir nýrri löggjöf um fjárreiður ríkisins. Uppsetning og framsetning í fjárlögum er öðruvísi sem gerir að verkum að frv. og bandormar eins og þessi er heyra vonandi sögunni til á næstu missirum.

Hæstv. forsrh. notaði tækifærið til að hrósa efnahagsstefnu sinni. Ekkert nýtt kom fram í því sem ekki hefur heyrst áður við 1. umr. fjárlaga og aðra efnahagsumræðu sem hefur verið hér á hausti. Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fara í mjög djúpa umræðu um efnahagsmálin. Ég vil hins vegar geta um að málin eru ekki svona einföld eins og forsrh. dró hér upp. Við vitum það þótt uppsveifla sé í samfélaginu þá er góðærinu misskipt. Við búum við mjög alvarlegan viðskiptahalla sem ríkisstjórnin hefur ekki náð tökum á. Við horfum upp á skuldaaukningu heimilanna, við höfum heyrt varnaðarorð, m.a. sérfræðinga frá OECD um hagkerfi okkar, við þekkjum ákveðin vandamál í samfélaginu sem tengjast heilbrigðismálum og menntamálum og við vitum að fátækt hefur aukist í samfélaginu. Rétt er, herra forseti, að það liggi ljóst fyrir við þessa umræðu að mat hæstv. forsrh. á stöðu efnahagsmála og mat mitt á stöðu þessara sömu mála er mjög ólíkt.

Ég vil gera tvö atriði í frv. að umtalsefni. Verið er að skerða markaðan tekjustofn Þjóðarbókhlöðuskattinn sem kallaður var svo. Hann er skertur um 80 millj. Þetta hefur oft verið gert áður. Það er ekki betra fyrir það þótt það hafi oft verið gert áður. Vissulega hefði verið farsælla að nýta þennan tekjustofn allan í það sem honum var ætlað. Í sambandi við Þjóðarbókhlöðuna má geta þess að málum var það illa komið fyrir, einmitt af hálfu þessarar ríkisstjórnar að stúdentar höfðu ekki aðstöðu til að lesa í Þjóðarbókhlöðunni eins og kom fram í fréttum fyrir nokkrum vikum. Þar vantaði fé og það var þessi ríkisstjórn sem afgreiddi það fé í fjárlagaumræðunni fyrir ári. Nú hefur barátta stúdenta hins vegar leitt til þess, og því bera að fagna, að lögð er til í brtt. meiri hluta fjárln. hækkun á framlagi, eyrnamerkt, upp á 14 millj. til að leysa sérstaklega úr þeim vanda sem var kominn upp vegna fjárlaga ríkisstjórnarinnar. Ég fagna því að meiri hluti og minni hluti fjárln. styður þá tillögu. Mótmæli stúdenta hafa borið árangur enda var það satt best að segja til skammar að við gætum ekki séð til þess að námsmenn gætu lesið í þeirri mjög svo góðu aðstöðu sem Þjóðarbókhlaðan er.

Hitt atriðið sem ég vil gera að umtalsefni er skerðingin á Framkvæmdasjóði fatlaðra. Tekinn er um helmingur af tekjustofninum í ríkissjóð og fylgt þeirri aðferðafræði sem hefur verið gert áður, bæði af hálfu þessarar ríkisstjórnar og fyrri ríkisstjórnar, þannig að engin ný sannindi eru fólgin í því. Þetta eru vitaskuld ekki skemmtileg vinnubrögð og ég veit að örugglega ýmsum innan stjórnarliðsins finnst ekki gaman að vinna út frá mörkuðum tekjustofnum sem eru skertir ár eftir ár. En eins og ég nefndi, þá komumst við vonandi út úr því með endurskoðun laga og í þeirri nýju umgjörð sem fjárreiður ríkisins veita okkur. Þess má geta í sambandi við Framkvæmdasjóð fatlaðra að verkefni í þessum málaflokki eru mjög mikil í samfélaginu. Brýnt hefði verið að standa að því að öllum þeim fjármunum sem ætlaðir voru í þennan málaflokk yrði varið eins og upprunalega var ætlað. Ég vil draga sérstaklega fram að þetta er svið þar sem betur má gera og við í stjórnarandstöðunni höfum margoft bent á og mun reyndar endurspeglast í brtt. okkar við afgreiðslu fjárlaga sem verða væntanlega til umræðu á morgun.

Herra forseti. Þetta frv. er efnahagslega ekki mjög mikilvægt. Það skerðir markaða tekjustofna um 336 millj. Hins vegar kemur fram í því stefnuatriði sem eru ámælisverð að mati okkar stjórnarandstæðinga og gefur okkur tilefni til að draga fram sýn okkar á efnahagsmálin og vekja sérstaka áherslu á þeim vandkvæðum og vandamálum sem blasa við fjölmörgum fjölskyldum í landinu.