Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 16:04:58 (1996)

1998-12-10 16:04:58# 123. lþ. 37.7 fundur 321. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999# (breyting ýmissa laga) frv. 158/1998, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[16:04]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get fullvissað hæstv. menntmrh. að mér er alveg kunnugt um verksvið þessa sjóðs sem fjallað er um í 1. gr. frv. Ég hef átt á hinu háa Alþingi skoðanaskipti við hæstv. menntmrh. hvort tilefni væri til að breyta verksviði þessa sjóðs. Ég sagði í ræðu minni, af því þessi sjóður hefur skírskotun til Þjóðarbókhlöðunnar, að í sambandi við Þjóðarbókhlöðuna væri hægt að ræða þessa þætti, sem ég og gerði, um lesaðstöðu stúdenta og rakti þá hluti eins og hæstv. ráðherra hefur staðfest. Í kjölfar mótmæla stúdenta hefur meiri hluti fjárln. séð ástæðu til að gera tillögu um 14 millj. kr. framlag til að bæta lesaðstöðuna. Það er enginn misskilningur hér á ferðinni. Það má vel vera að hæstv. menntmrh. sárni það að vera gripinn með það að stúdentar grípi til sérstakra mótmælaaðgerða vegna þess að í hans málaflokki er ekki staðið betur að verkum. Það má vel vera að hæstv. ráðherra sárni það. Það er ekkert sem ég get gert við. Ég fagna því hins vegar að mótmæli stúdenta báru árangur í þetta sinn. Það á að verða okkur keppikefli að gera veg menntunar meiri en verið hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar.