Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 16:06:45 (1997)

1998-12-10 16:06:45# 123. lþ. 37.7 fundur 321. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999# (breyting ýmissa laga) frv. 158/1998, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[16:06]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram í máli hv. þm. að það er rétt sem hann sagði að hann var að tala hér um allt annað mál en frv. Hann gagnrýndi það hins vegar í fyrstu ræðu sinni að skorið væri niður fé til endurbótasjóðsins um 80 millj. kr. og talaði um að það mundi bitna á lesaðstöðu fyrir nemendur sem vildu lesa í Þjóðarbókhlöðunni. Hann hefur núna skipt um skoðun í þessu efni og flutt ræðu sem sýnir að hann áttar sig á því eftir mína ræðu að hann hafði rangt fyrir sér.

Varðandi hitt atriðið er alveg ljóst að unnið hefur verið markvisst að því að lengja afgreiðslutíma Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns sem starfar í Þjóðarbókhlöðunni. Menntmrn. hefur unnið að þessu og fullmótaðar tillögur hafa komið frá háskólaráði og stjórn Þjóðarbókhlöðunnar um það hvernig unnt væri með sameiginlegu átaki að bæta lesaðstöðu nemenda. Þær tillögur voru lagðar fyrir mig og hv. fjárln. og hún hefur nú gert tillögur í samræmi við þessar sameinuðu tillögur háskólaráðs og stjórnar Þjóðarbókhlöðunnar sem leiðir til þeirrar niðurstöðu sem við sjáum í brtt. við fjárlagafrv. Námsmenn lögðu þessu máli einnig lið, enda eru hagsmunir þeirra miklir í þessu og ég fagna því að sjálfsögðu að góðri niðurstöðu sé náð í þessu máli.