Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 16:08:24 (1998)

1998-12-10 16:08:24# 123. lþ. 37.7 fundur 321. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999# (breyting ýmissa laga) frv. 158/1998, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[16:08]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Enn og aftur, það er nú reyndar ekki í fyrsta skipti að maður þurfi að segja sömu hlutina tvisvar eða þrisvar sinnum gagnvart hæstv. menntmrh. Það er enginn misskilningur í þessu máli. Í 1. gr. frv. er talað um lög um Þjóðarbókhlöðu og um þá skerðingu sem við erum að ræða hér um. Ég sagði áðan að ég hefði notað þá tilvísun til að benda á mjög gagnrýnisverðan hlut að mínu mati í stefnu hæstv. menntmrh. Það getur verið að það komi við kaunin á honum að hér skuli það vera tekið til sérstakrar umræðu undir þessum dagskrárlið. Hann verður að þola að menn taki þá skírskotun sem þingmál gefa tilefni til, sérstaklega af því hæstv. forsrh. hóf þessa umræðu með almennu mati á efnahagsmálum eins og hann sá þau, sem gaf mér einnig þá tilefni til að draga fram nokkra þætti sem ég hef gert gagnvart hæstv. menntmrh.

Staða stúdenta er eins og við höfum séð. Lesaðstaða hefur ekki verið gerð þannig úr garði fyrr en eftir þessi mótmæli svo núna horfir til bóta. Við höfum séð háskólasamfélagið ganga með betlistaf um samfélagið til að ná sér í tölvur þannig að hægt er að benda á fjölmörg dæmi í þessari stjórnarstefnu sem síður en svo horfir til framfara fyrir almenning.