Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 16:38:18 (2010)

1998-12-10 16:38:18# 123. lþ. 37.7 fundur 321. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999# (breyting ýmissa laga) frv. 158/1998, ÞHS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[16:38]

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins til að varpa fram fyrirspurn í sambandi við Framkvæmdasjóð fatlaðra að tekjur af erfðafjárskatti umfram 235 millj. kr. á árinu 1999 renni í ríkissjóð. Þá er lagt til að sjóðurinn standi undir kostnaði við félagslega hæfingu og endurhæfingu. Mig langar að fá aðeins nánari útskýringu á hvað þetta þýðir nákvæmlega vegna þess að búið er að hækka stórlega í Tryggingastofnun kostnað við endurhæfingu. Það hefur hækkað um liðlega 300 kr. fyrir hvert skipti sem fólk fer til sjúkraþjálfara og margir í þessum hópi þurfa langvarandi endurhæfingu. Ég hefði viljað fá örlitlar nánari upplýsingar um þetta.

Ég tel að málaflokkurinn sem slíkur þarfnist töluvert mikilla fjármuna og eins og fram hefur komið er staða öryrkja sú allra lakasta í þessu samfélagi og þarfnast mikilla endurbóta.