Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 17:46:40 (2018)

1998-12-10 17:46:40# 123. lþ. 37.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[17:46]

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um eitthvert allra stærsta mál sem hefur komið fyrir Alþingi Íslendinga um langt skeið. Þetta mál felur í sér að verið er að hleypa einkaaðila með sterkan bakgrunn erlendis inn í erfðaauðlindir Íslendinga og heilbrigðisupplýsingar þjóðarinnar.

Þetta mál felur í sér að á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna er verið að brjóta gegn grundvallaratriðum í persónuvernd. Þetta mál felur í sér að verið er að ganga gegn samningsskuldbindingum Íslendinga. Við þingmenn óháðra höfum vísað á allt aðra leið í þessu máli. Við höfum lýst eindreginni andstöðu við þetta mál í heild sinni og munum berjast gegn þessu máli áfram ef þessi tillaga ekki hlýtur samþykki, en hún felur í sér að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég segi já.