Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 18:09:53 (2036)

1998-12-10 18:09:53# 123. lþ. 37.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[18:09]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um grundvallaratriði að starfræktur skuli miðlægur gagnagrunnur á heilbrigðissviði. Fyrir Alþingi liggur vönduð þáltill. um dreifða gagnagrunna sem flutt var af hálfu þingmanna óháðra en þessa dreifðu gagnagrunna væri unnt að samkeyra undir eftirliti og stjórn vísindasiðanefndar. Þessi tillaga hefur fengið víðtækan stuðning lækna, samtaka sjúklinga og á meðal vísindamanna. En ríkisstjórnin reynist hafa eitt auga í miðju enni, sér aðeins til að gæta hagsmuna eins fyrirtækis á kostnað vísindasamfélagsins, á kostnað sjúklinga og það er ekki að undra að þessi ríkisstjórn skuli nú fá vantraust allra þeirra sem gerst þekkja til þessara mála, bæði hér á landi og víðs vegar um lönd.