Afnám laga um húsaleigu sem fylgir vísitölu húsnæðiskostnaðar

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 18:58:16 (2056)

1998-12-10 18:58:16# 123. lþ. 37.8 fundur 322. mál: #A afnám laga um húsaleigu sem fylgir vísitölu húsnæðiskostnaðar# frv. 168/1998, SvG
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[18:58]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég kem upp til þess að lýsa stuðningi við þetta mál og ætlaði í leiðinni að rifja upp með fáeinum orðum hvað þetta var í raun og veru hræðilegur tími, þ.e. að þurfa að taka þátt í því að stjórna þjóðfélaginu við þær aðstæður sem þessi lög voru sett á.

Það er fagnaðarefni að það skuli vera hægt að koma þeim til hliðar á þann stað þar sem þau eiga heima. Ég tel hins vegar að þau veki upp þá spurningu hvort ekki sé ástæða til að taka á þessum vísitölumálum sem eftir eru í heild. Það er fullt af þessum vísitölutengingum til enn þá og sú illvígasta er þessi lánskjaravísitala sem enn þá er notuð, auðvitað í minnkandi mæli, en í þó nokkrum mæli í fjárskuldbindingum. Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja til þess að menn noti tækifærið til að ráðast að öllum þessum sjálfvirku tengingum í skuldbindingum af þessu tagi. Ég vil ekki að elli- og örorkulífeyrir verði látinn gjalda þessa á undan öllum öðrum breytingum í þjóðfélaginu. En ég tel að full ástæða sé til að velta því fyrir sér hvort ekki eigi að brýna kutana um leið og þetta frv. verður að lögum vegna þess að ég held að þrifnaður sé að því að hreinsa þetta út víðar og spyr hæstv. hagstofuráðherra hvort það hafi komið til tals í leiðinni að gera atlögu að fleiri sjálfvirkum vísitöluþáttum af þessu tagi.