Afnám laga um húsaleigu sem fylgir vísitölu húsnæðiskostnaðar

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 19:00:08 (2057)

1998-12-10 19:00:08# 123. lþ. 37.8 fundur 322. mál: #A afnám laga um húsaleigu sem fylgir vísitölu húsnæðiskostnaðar# frv. 168/1998, PHB
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[19:00]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum er afsprengi skelfilegra tíma þegar verðbólgan geystist áfram, hækkaði jafnvel um 5% mánuð eftir mánuð, fór yfir 100% á ári og olli geysilegum tilflutningi á eignum og skuldum. Þetta er sem betur fer liðin tíð. Það hefur tekist að ná verðbólgunni niður með samstilltu átaki allra aðila í þjóðfélaginu og með skynsamlegum ráðstöfunum ríkisvaldsins. Ég get því alveg fallist á að þessi vísitala sé tekin úr sambandi, sérstaklega af því að hún hefur þann eiginleika að hún hækkar eins og laun og laun hafa sem betur fer hækkað mjög myndarlega og vonandi gera þau það áfram þannig að lífskjörin batni.

Hins vegar vil ég vara við því að láta slíka samninga enda í einhverju tómarúmi. Oft eru gerðir leigusamningar til mjög langs tíma, 10--20 ára, jafnvel 30 ára og þá er leigan gjarnan höfð lág vegna þess að hún er verðtryggð. Ef nú á allt í einu að fara að semja um leiguna upp á nýtt, þá getur það gerst að leigan verði hækkuð stórlega á þeim sem borga leigu vegna þess að þá er leigusalinn allt í einu kominn í stöðu óöryggis vegna verðbólgu, og það er þekkt úr lánaviðskiptum að óverðtryggðir lánasamningar eða óverðtryggð skuldabréf gefa af sér hærri vexti en verðtryggð þannig að verðtryggingin hefur lækkað vexti hjá skuldurum, enda áhætta tekin af þeim sem á fjármagnið.

Það sama á við hér. Þetta kann að leiða til hækkunar á leigu, getur í einstökum tilfellum líka valdið lækkun þar sem leigan hefur í tímans rás þróast með verðtryggingunni upp fyrir markaðsverð. Ég vil því að þetta mál sé skoðað miklu nánar en hér er gert og það er ekki hægt að vísa þeim sem hafa gert svona langtímasamninga yfir á skammtímamarkað með samninga. Þess vegna legg ég til að hv. efh.- og viðskn., sem ég á reyndar sæti í, skoði þetta mál nánar þegar því hefur verið vísað til hennar og kanni hvaða áhrif þetta kunni að hafa á langtímaleigusamninga sem hafa verið settir á í trausti þess að leigan sé verðtryggð. Leigusamningar til 20--30 ára eru nánast útilokaðir án verðtryggingar þannig að ég hef ákveðnar efasemdir um að kippa þessu svona burt og kannski þarf að setja bráðabirgðaákvæði í frv. þess eðlis að þeir samningar sem eru í gildi í dag skuli verðtryggjast miðað við viðurkenndar vísitölur, t.d. lánskjaravísitöluna, sem þá væntanlega viðheldur lágri leigu áfram.