Afnám laga um húsaleigu sem fylgir vísitölu húsnæðiskostnaðar

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 19:03:27 (2058)

1998-12-10 19:03:27# 123. lþ. 37.8 fundur 322. mál: #A afnám laga um húsaleigu sem fylgir vísitölu húsnæðiskostnaðar# frv. 168/1998, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[19:03]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. undirtektir við þetta mál og vona að það fái góða skoðun og jákvæða meðhöndlun í nefndinni. En ég vek athygli á því að við þurfum að hraða meðferðinni vegna þess að við erum með tímamörk í frv. sem miða við áramótin. Það er því knappur tími. En ég óttast ekkert um afdrif þessa frv. Ég heyri að það er ríkur vilji til að fylgja því fram.

Varðandi það sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði áðan, þá var í sjálfu sér ekki tekin ákvörðun í tengslum við þetta mál að gera atlögu að vísitölubindingum almennt en ég tel, og tek undir sjónarmið hans í þeim efnum, skynsamlegt að fara yfir það svæði allt og leitast við að höggva á þær tengingar sem nú eru orðnar óþarfar a.m.k. að mestu. Við verðum auðvitað áfram að reikna út tilteknar vísitölur. Skuldbindingar ríkisins gagnvart lántakendum til að mynda eru bundnar slíku og fleira mætti nefna en engu að síður er það sjálfsagt og eðlilegt miðað við stefnu þingsins að leita slíkt uppi og fækka slíkum tilefnum.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan vegna orða hv. þm. Péturs Blöndals að Hagstofan telur sér skylt að hafa uppi áróður í jákvæðri merkingu orðsins eftir að þetta frv. hefur orðið að lögum til að kynna breytta stöðu þannig að fólk átti sig á því að þessi breyting hafi átt sér stað svo það fari ekki fram hjá neinum. Við þingmenn vitum að sumt af því sem ákveðið er á þessum tíma ársins í þinginu, þótt mikilvægt sé fyrir einstaka aðila í þjóðfélaginu, vill fara fyrir ofan garð og neðan eins og gengur. Það er því nauðsynlegt til að menn tapi ekki réttindum sínum á hvorugan veginn, leigjendur eða leigusalar, að nákvæm og mikil kynning fari fram á þeim ákvörðunum sem þingið endanlega tekur.