Lífeyrissjóður bænda

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 19:05:55 (2059)

1998-12-10 19:05:55# 123. lþ. 37.9 fundur 323. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (heildarlög) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[19:05]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. sem hér er lagt fram um Lífeyrissjóð bænda í því skyni að samræma lög um lífeyrissjóðinn ákvæðum laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Það þykir rétt að í lögum um Lífeyrissjóð bænda sé tekið á grundvallaratriðum í starfsemi sjóðsins svo sem sjóðsaðild, iðgjaldsstofni, iðgjöldum, lífeyrisréttindum, lágmarksákvæðum varðandi útreikning lífeyris sem og ákvæðum um innheimtu iðgjalda en hún er með nokkuð öðrum hætti en hjá öðrum sjóðum. Gert er ráð fyrir að önnur ákvæði um starfsemi sjóðsins og nánari ákvæði um útreikning lífeyris verði í samþykktum hans.

Hér er að ýmsu leyti um að ræða sambærilegt frv. og flutt var fyrr í haust og afgreitt hefur verið úr efh.- og viðskn. um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda þar sem verið var að samræma ákvæði laga um þann sjóð hinni nýju heildarlöggjöf og sama er að segja um það mál sem næst er á dagskrá, um Lífeyrissjóð sjómanna. Þar er að hluta til um að ræða sams konar samræmingu þannig að sjóðirnir allir búi við löggjöf sem samræmd hefur verið hinum nýju heildarlögum.

Að því er þetta frv. varðar eru helstu breytingar sem í því felast eftirfarandi:

Gert er ráð fyrir að stofn til greiðslu upp í iðgjald yfirstandandi árs verði samkvæmt greinargerð um reiknað endurgjald í ársbyrjun en ekki verði miðað við tekjur næstliðins árs. Jafnframt er gert ráð fyrir því að lok iðgjaldagreiðslutíma miðist við 70 ára aldur en í gildandi lögum er ekki gert ráð fyrir að iðgjöld séu greidd eftir að að taka ellilífeyris hefst eða eftir lok 69. aldursárs.

Lagt er til að ákveðinn verði nýr grundvöllur stigaútreiknings og að stigaútreikningur miðist við 25-föld iðgjöld sjóðfélaga en ekki 24-föld eins og er í gildandi lögum.

Gert er ráð fyrir heimild til að kveða á um viðbótariðgjald til séreignarsparnaðar í samþykktum sjóðsins.

Lagt er til að fellt verði niður lágmarksákvæði vegna ellilífeyrisréttar og opnað verði fyrir þann möguleika að heimila töku ellilífeyris allt að tveim árum fyrr en nú er. Lagðar eru til nokkrar breytingar á reglum um örorku- og makalífeyri til samræmis við það sem gildir hjá öðrum sjóðum og til samræmis við ákvæði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Lagt er til að tengsl barnalífeyris við barnalífeyri almannatrygginga verði afnuminn en þess í stað er gert ráð fyrir að fjárhæðir miðist við lágmarksfjárhæðir samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Loks eru í III. kafla frv. lagðar til nokkrar breytingar sem nauðsynlegar eru til að halda réttindum aldraðra innan þess hóps sem réttinda nýtur í sjóðnum óbreyttum, samanber II. kafla gildandi laga um þennan sjóð.

Herra forseti. Lög um Lífeyrissjóð bænda tóku fyrst gildi á árinu 1970. Þeim hefur alloft verið breytt síðan en sjóðurinn hóf starfsemi 1. janúar 1971. Ný heildarlög voru sett 1984. Þá fengu makar bænda lífeyrisrétt og síðan hafa verið gerðar nokkrar efnisbreytingar á lögunum. Þegar líða tók á 10. áratuginn var ljóst að breyta þurfti ýmsum gildandi ákvæðum laganna og skipaður var vinnuhópur af hálfu fjmrh. sem var falið að gera tillögur að nýju frv. um starfsemi sjóðsins. Sá hópur lauk störfum í nóvember 1997 og skilaði tillögum um breytingar á þessum lögum sem voru samþykktar sem lög nr. 122/1997.

Á sama tíma var frv. um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða afgreitt hér en ýmis ákvæði í lögunum um lífeyrissjóðinn sem ekki var breytt með lögunum nr. 122/1997 eru ekki í samræmi við hin nýju lög og þess vegna m.a. er þetta frv. flutt.

Ég legg til, herra forseti, að að loknum þessum umræðum verði frv. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.