Lífeyrissjóður bænda

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 19:18:44 (2061)

1998-12-10 19:18:44# 123. lþ. 37.9 fundur 323. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[19:18]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir um það bil eitt atriði í ræðu hv. þm. Péturs Blöndals, þ.e. að kjör bænda séu bág. Að flestu öðru leyti fannst mér ræða hans vera meira og minna út í loftið. Ég fæ t.d. ekki séð að bændum væri til góða að ofan á bág kjör þeirra væru afurðastöðvar þeirra á brauðfótum. Ég skil ekki málflutning af því tagi að það sé sérstök meinsemd fyrir atvinnugrein að eiga sæmilega burðugar úrvinnslu- og afurðastöðvar.

Að öðru leyti verð ég að segja eins og er: Mér finnst hv. þm. Pétur Blöndal vera haldinn einhverri undarlegri þráhyggju þegar kemur að lífeyrissjóðum. Það þarf ekki nema nefna orðið lífeyrissjóður. Þá er eins og ýtt sé á takka og hv. þm. Pétur Blöndal spýtist upp úr stólnum eins og hann sæti á gormum. Svo koma þessar ræður sem maður er að verða býsna hundleiður á, herra forseti, um lífeyrissjóðina, um hið skelfilega vald þeirra og þeir séu að gleypa allt og alla. Svo ekki minnst um lýðræðið í lífeyrissjóðunum, þessi mikla lýðræðisást hv. þm. blossar ævinlega upp þegar minnst er á stjórnun lífeyrissjóðanna.

Nú veit hv. þm. betur. Hann veit að þetta á sér að hluta til sögulegar forsendur. Þetta liggur í þeim rótum lífeyrissjóðakerfisins. Þeim var komið á í gegnum samstarf aðila vinnumarkaðarins. Lífeyrissjóðirnir eru að miklu leyti sprottnir úr frjálsu samkomulagi aðila vinnumarkaðarins, vissulega stuðningi stjórnvalda gegnum tíðina, en það þýðir ekki að ræða þetta svo útópískt sem hv. þm. gerir.

Ástæðan fyrir því að stjórn Lífeyrissjóðs bænda er skipuð eins og raun ber vitni er einfaldlega sú að þar er reynt að endurspegla sama jafnvægi í stjórn sjóðsins og gerist í almennum lífeyrissjóðum, þ.e. að stjórnin sé að hluta tilnefnd af bændum og að hluta af þeim, sem í þessu tilviki hafa verið viðsemjendur þeirra, ríkisvaldinu. Ríkisvaldið hefur í þessu tilfelli komið sérstaklega að því, í gegnum opinbera verðlagningu á búvörum og fleira því um líkt, að mynda Lífeyrissjóð bænda.