Lífeyrissjóður bænda

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 19:23:22 (2064)

1998-12-10 19:23:22# 123. lþ. 37.9 fundur 323. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[19:23]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir mjög málefnalega umræðu. Þetta er alveg sérstaklega málefnalegt að segja að ég sé spýtukarl ... (Gripið fram í: Á gormum.) Ég skil þau rök mjög vel.

Hins vegar kom hann sér hjá því að svara hvort hann treysti bændum til þess að fara með eigin fjármál. Hann svaraði því ekki. Hann sagði að stéttin ætti þetta kollektíft og hvað skyldi það nú þýða? Það er hægt að reikna nákvæmlega út hvað hver bóndi á í réttindum. Það er hægt að reikna upp á krónu og eyri hvað hver bóndi á í réttindum. Það er háð aldri hans ... (SJS: Þetta er samtrygging.) það er háð aldri hans og fjölskyldustöðu og hægt að reikna þetta nákvæmlega út. (SJS: Ekki séreigna ... ) Það er hægt að reikna þetta sem sameign, það er enginn vandi og það er gert, herra forseti. Það er gert þegar sjóðirnir eru teknir út. Þá er reiknuð skuldbinding fyrir hvern einasta sjóðfélaga og hægt að segja þessum manni hvað hann á mikið upp á krónu og eyri.

Ég er að leggja þetta til: Ég vil að sjóðfélagarnir viti hvað þeir eiga í þessum sjóðum og þá átta þeir sig hugsanlega líka á því að það skiptir þá verulegu máli hvernig ávöxtunin er. Þá mundu þeir gera kröfu til þess á næsta ársfundi sjóðsins, sem samkvæmt lögum skal haldinn einu sinni á ári, að fá að ráða þessari stjórn. Ég geri ráð fyrir að margur sjóðfélaginn yrði hissa ef hann mætti á ársfundinn og sæi allt annað fólk en hann kjósa í stjórnina.