Lífeyrissjóður bænda

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 19:27:20 (2066)

1998-12-10 19:27:20# 123. lþ. 37.9 fundur 323. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (heildarlög) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[19:27]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að taka undir athugasemdir hv. síðasta ræðumanns. Vissulega deili ég með henni áhyggjum af afkomu Lífeyrissjóðs bænda. Þar er um sérstaklega snúnar aðstæður að ræða út af aldurssamsetningunni í greininni. Framtíðarhorfur landbúnaðarins eins og þær blasa við, fækkun starfandi bænda og mjög óheppileg aldurssamsetning, þýðir að hlutfall greiðandi manna á vinnualdri er óhagstætt borið saman við þann mikla fjölda sem fer ýmist nú eða á allra næstu árum á eftirlaun hjá þessum sjóði.

Ég get einnig tekið undir það að mér finnst að ríkissjóður hljóti að bera þarna nokkra ábyrgð vegna þess hvernig málið er vaxið og síðan ósköp einfaldlega vegna þess að kjör bænda hafa að verulegu leyti verið mörkuð af opinberum afskiptum á undangengnum árum. Vísa ég þá bæði til opinberra verðlagsákvarðana um framleiðsluvörur þeirra og einnig til samninga um búvöruframleiðslu.

Hvað jafnréttisákvæðin í Lífeyrissjóði bænda varðar þá er það rétt að þau eru merk í sjálfu sér en þau eru til komin af þeim ástæðum sem hv. þm. nefndi, að inn í verðlagsgrundvöllinn koma reiknuð laun eða tekjur beggja aðila sem að búi standa þegar svo háttar til. Þar af leiðandi er sjálfsagt að lífeyrisréttindunum sé skipt.

Ég minni að vísu á að sá möguleiki var gefinn, með breytingu á löggjöf um lífeyrissjóði á síðasta vetri ef ég man rétt, að hjón gætu gert með sér samninga um skiptingu lífeyrisréttinda og gengið frá skiptingu á þegar áunnum lífeyrisréttindum á tiltekinn hátt. Þau ákvæði eru að vísu vandasöm í framkvæmd og kannski lítt farið að sjá fyrir endann á því hvernig til tekst. Það er þó að sjálfsögðu mikilvægt spor í jafnréttisátt, að hin almenna regla í öllum lífeyrissjóðum verði sú að sé um mismunandi inngreiðslur og réttindaávinnslu að ræða í tilviki hjóna eða sambýlisfólks, þá verði því skipt eða það jafnað, a.m.k. ef um sameiginlegan fjárhag er að ræða.

Að lokum hlýt ég að bæta við, herra forseti, vegna orðaskipta við hv. þm. Pétur H. Blöndal. Auðvitað er hægt að reikna út lífeyrisskuldbindingar eða rétt hvers einstaks aðila í samtryggingarsjóði. En hvaða tilgangi þjónar það öðrum en stærðfræðilegum þar sem um samtryggingarsjóð á félagslegum grunni er að ræða? Ég veit auðvitað að hv. þm. er ekki hrifinn af því fyrirkomulagi. Hv. þm. vill sjálfsagt einkavæða þetta eins og alla skapaða hluti og taka hvarvetna upp séreignarfyrirkomulag þannig að menn eignist lífeyrisréttindi í samræmi við það sem þeir greiða inn hver og einn á persónulegum grunni. Þannig eignast þeir meiri lífeyri sem hafa haft hærri tekjur alla starfsævina. Það er í samræmi við hugmyndir hv. þm. um þjóðfélagið sem hann vill búa í. Ég veit vel um þær en það eru ekki mínar hugmyndir. Guði sé lof fyrir það að íslenska lífeyrissjóðakerfið er á samábyrgðargrunni og hefur þrátt fyrir allt tekist að verja þann grunn sem náðist inn í lagabreytingarnar núna á síðustu tveimur árum, þ.e. 10% inngreiðslugólfið sem þar er sett fyrir samtryggingareðli sjóðanna.