Lífeyrissjóður bænda

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 19:31:47 (2067)

1998-12-10 19:31:47# 123. lþ. 37.9 fundur 323. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[19:31]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. heldur því fram að ég styðji séreignarsjóði. Það er alrangt. Ég hef margoft sagt að séreignarsjóðir tryggi ekki neitt, taka ekki áhættu af sjóðfélaganum og tryggi hann heldur ekki. En það er aftur á móti rangt hjá hv. þm. að hærri laun gefi ekki hærri lífeyri. Allt íslenska lífeyrissjóðakerfið er byggt upp á því að maður sem hefur tvöfalt hærri laun fær tvöfalt hærri lífeyri. Allt kerfið er þannig uppbyggt þannig að það er þá einhver mikill misskilningur hjá hv. þm. ef hann heldur að það sé eitthvað öðruvísi.

Hins vegar er munurinn á sameign og séreign sá að í sameign eru menn tryggðir á meðan þeir lifa þótt þeir verði 107 ára gamlir og ef þeir verða öryrkjar eru þeir tryggðir til æviloka. Ef þeir verða öryrkjar 25 ára geta þeir verið tryggðir í 70 ár. Það er sameignin. Þá taka þeir miklu meira út úr sjóðum en þeir borga inn í hann. Þetta er munurinn á sameign og séreign. En þeir eru með tvöfalt hærri lífeyri sem eru með tvöfalt hærri laun, það er þannig í dag.

Það sem hægt er að gera er að reikna út skuldbindingu fyrir hvern einasta mann, þessa sameignarskuldbindingu, og mér finnst að hann eigi að vita af því hvað hann á mikið. Fjöldi fólks í þessu þjóðfélagi veit ekki hvað það á í lífeyrissjóðunum. Að meðaltali eiga íslenskir launþegar yfir 2 millj. í lífeyrissjóðnum sínum. Fólkið bara veit ekkert af þessu, ekki frekar en bændur vita af eign sinni í Mjólkursamsölu Reykjavíkur. Af þessu vil ég láta menn vita þannig að þeir vakni til vitundar um að það skiptir verulegu máli hvernig þetta fjármagn og þessi eign þeirra er geymd.

Svo vil ég minna á að nú nýverið hafa birst upplýsingar um lífeyrisréttindi bankastjóra og þau eru líka með nákvæmlega sama hætti sameignarfyrirkomulag. Þau voru reiknuð út. Þeir fá lífeyri meðan þeir lifa. Það er sameignarfyrirkomulag. Þeir fengu því reyndar breytt yfir í séreignarfyrirkomulag en það skiptir í rauninni engu máli. Upprunalífeyrir bankastjóra var 90% af launum eftir 15 ára starfsferil og til æviloka.