Lífeyrissjóður bænda

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 19:34:03 (2068)

1998-12-10 19:34:03# 123. lþ. 37.9 fundur 323. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[19:34]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera hv. þm. rangt til og ég tek fúslega við því að hann sé ekki stuðningsmaður séreignarsjóða. Hann svaraði fyrir það. Ég fagna því í sjálfu sér. Að öðru leyti held ég að við séum í verulegum mæli í grundvallaratriðum ósammála um það hvernig eigi að nálgast þetta mál og hvað skipti máli í þessu sambandi. Ég lít ekki á það sem löst heldur kost við samtryggingarsjóðinn að þar er mönnum ekki hent út á gaddinn þegar einhver persónuleg ávinnsla þeirra er búin. Þar er tryggingin jöfnuð út gagnvart örorku og öðru slíku og þar greiða menn inn á sinni starfsævi í jöfnum áföngum og menn eru ekki metnir eftir kynferði, aldri eða öðru slíku. Það er auðvitað hættan í hinu kerfinu. Við vitum held ég báðir, hv. þm., hvert líklegt sé að slíkt leiði ef menn opna fyrir það á annað borð. Við fórum í gegnum alla þessa umræðu og þarna rekst einfaldlega á tvenns konar hugmyndafræði. Það er alveg ljóst þannig að ég vísa bara til þeirrar umræðu og skal ekki lengja hana hér.