Lífeyrissjóður bænda

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 19:35:19 (2069)

1998-12-10 19:35:19# 123. lþ. 37.9 fundur 323. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[19:35]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Einn meginvandi íslenska lífeyrissjóðakerfisins í dag er að réttindavinnslan, þ.e. þau réttindi sem menn fá fyrir sitt iðgjald, er ekki háð aldri og ekki háð kyni og ekki háð hjúskaparstöðu. Þetta verður til þess, eins og hér kom fram í ræðu áður, að Lífeyrissjóður bænda er illa staddur af því að í honum er margt gamalt fólk en hann er að veita sömu réttindi og sjóður þar sem ungt fólk er. Tvítugur maður á að fá þrefalt meiri réttindi fyrir hverja krónu í iðgjaldi heldur en sextugur maður vegna þess að reiknað er með 3,5% vöxtum í lífeyrissjóðnum og ávöxtunin er þá lengur hjá yngri manninum, þangað til hann fer á lífeyri. Lífeyrissjóðakerfið á Íslandi er því ekki með þessa skiptingu eftir kyni og aldri. En hún er að koma vegna þess að ákvæðið um viðbótariðgjaldið, 2%, neyðir lífeyrissjóðina til að veita réttindi háð kyni, aldri og fjölskyldustöðu. Tveir sjóðir eru búnir að kynna þetta og tilkynna og eru þegar búnir að taka upp slíkt kerfi. Það hefur verið tekið upp í vaxandi mæli að réttindi í lífeyrissjóðunum verða háð kyni, aldri og fjölskyldustöðu og þá erum við komin í þá stöðu að það má einkavæða þetta allt saman.