Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 19:40:29 (2071)

1998-12-10 19:40:29# 123. lþ. 37.10 fundur 324. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (heildarlög) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[19:40]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Hér er flutt frv. um Lífeyrissjóð sjómanna sem að hluta til er sambærilegt við hið fyrra mál sem hér var rætt, þ.e. frv. um Lífeyrissjóð bænda og einnig frv. um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda sem liggur fyrir í þinginu til 3. umr.

Þessi frv. eru sambærileg að því leyti til að í þeim öllum er lagt til að samræma hinar sérstöku reglur þessara sjóða almennu reglunum í lögunum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þá þætti sérstaklega og vísa til þess sem áður hefur verið sagt um það efni að því er varðar hina sjóðina tvo.

Í öðru lagi er lagt til í þessu frv., herra forseti, að lögunum um sjóðinn verði breytt í kjölfarið á dómi Hæstaréttar frá 28. maí sl. en samkvæmt þeim dómi var breyting á reglum sjóðsins sem gerð var á árinu 1994 talin ólögmæt, m.a. vegna þess að hún var gerð með reglugerð og samhliða voru réttindi sjóðfélaga skert. Niðurstaða dómsins var sem sagt sú að ekki væri hægt að fella ákvæði um lífeyrisréttindi úr lögum og skerða samhliða þessi réttindi með reglugerð jafnvel þótt slíkar breytingar gætu staðist væru þær gerðar með lögum. Því er nauðsynlegt að setja reglur um lífeyrisréttindi í Lífeyrissjóði sjómanna aftur í lög. Reglur um ellilífeyri, örorkulífeyri, maka- og barnalífeyri hafa í frv. verið samræmdar reglum III. kafla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og eru að mestu leyti samhljóða þeim reglum sem nú gilda hjá sjóðnum.

Í þriðja lagi, herra forseti, er frv. flutt vegna óska frá stjórn sjóðsins um að gerðar verði breytingar á réttindum sjóðfélaga vegna þeirrar stöðu sem þessi sjóður er kominn í. Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt sem gerð var miðað við stöðu sjóðsins í árslok 1997 vantaði 8.246 millj. kr. á að sjóðurinn ætti fyrir heildarskuldbindingum. Samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða skulu samþykktir hvers lífeyrissjóðs við það miðaðar að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar. Munur á milli eigna og skuldbindinga má ekki vera meiri en 10% á einu ári og ekki meiri en 5% samfellt í fimm ár. Hallinn á Lífeyrissjóði sjómanna nam í árslok 1997 13,3% af heildarskuldbindingum og hafði verið hinn sami í árslok 1996 og 1995. Til þess að rétta af stöðu sjóðsins er lagt til í frv., eins og stjórn sjóðsins hefur farið fram á, að öll réttindi sjóðfélaga verði lækkuð um 13,4%, enda er það mat stjórnar sjóðsins að brýna nauðsyn beri til þessarar skerðingar eins og málum er komið.

Með þeim breytingum sem lagðar eru til er gætt fyllsta jafnræðis meðal sjóðfélaga að mati stjórnar sjóðsins, en við útreikning á stuðli á elli-, örorku- og makalífeyri hefur verið miðað við lækkun um 13,4% eins og áður er getið en þó þannig að ekki er gert ráð fyrir því að barnalífeyrisgreiðslur lækki. Eftir þessar breytingar, ef þær verða að lögum, mundi sjóðurinn engu að síður uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í 4. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða um lágmarkstryggingavernd þrátt fyrir þær skerðingar sem gert er ráð fyrir í frv. Er það sökum þess að Lífeyrissjóður sjómanna hefur veitt sjóðfélögum sínum ríflegan lífeyri og meiri en almennt gerist í þjóðfélaginu og svo mun reyndar verða áfram að mati sjóðstjórnar þrátt fyrir þessar breytingar sem stjórnin hefur talið óumflýjanlegt að leggja til.

Herra forseti. Rétt er að geta þess að í stjórn sjóðsins var ekki algjör eining um þetta mál. Einn fulltrúi í stjórninni, fulltrúi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, var ekki samþykkur þeirri afgreiðslu sem meiri hluti stjórnarinnar, fimm stjórnarmenn af sex, stóðu að og hafði aðrar tillögur um hvernig bregðast skyldi við þeim vanda sem allir viðurkenna að blasir við þessum sjóði. Að sjálfsögðu er eðlilegt að þingnefndin, hv. efh.- og viðskn., fjalli um hugmyndir Farmanna- og fiskimannasambandsins samhliða þeim tillögum sem stjórnin gerði að sínum og eru þess vegna fluttar í þessu frv. Það er mjög mikilvægt að brugðist verði af ábyrgð við þeim vanda sem fyrir hendi er í þessum lífeyrissjóði og ég efast ekkert um að stjórnarmenn allir eru sér meðvitaðir um þann vanda sem þar er við að glíma og nauðsyn þess að sjóðurinn uppfylli skilyrði hinna almennu laga um lífeyrissjóði. Ég tel að sjóðstjórnin hafi sýnt mikla ábyrgð með því að biðja um þessar breytingar sem teknar eru inn í frv. En ég tel eigi að síður að efh.- og viðskn. eigi að kanna málið frá öllum hliðum og fara yfir þær breytingar sem Farmanna- og fiskimannasambandið hefur lagt til og ég hygg að þingmenn allir hafi fengið í hendur. Auðvitað er æskilegast að út úr því komi allsherjarsamkomulag allra þeirra hagsmunaaðila sem þarna eiga hlut að máli og þeirra sem aðild eiga að þessum sjóði og hafa sameiginlega byggt hann upp.

Þetta vildi ég nefna, herra forseti, og beini þessum tilmælum til nefndarmanna í efh.- og viðskn. um leið og ég legg til að málinu verði vísað þangað og til 2. umr.