Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 20:07:35 (2077)

1998-12-10 20:07:35# 123. lþ. 37.10 fundur 324. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (heildarlög) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[20:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð við þessa umræðu um þetta mál. Ég á þess kost að skoða það í hv. nefnd og með tilliti til aðstæðna og tíma sem okkur er skapaður við þessa umræðu þá fer ég hratt yfir sögu. Hér hafa staðið nokkuð stríðir fundir, eins og ég veit að forseti veit manna best, fram á nætur undanfarna sólarhringa og er nú mál að linni og reyna að ljúka fundi.

Ég held að menn verði að hafa það í huga þegar þessi mál eru rædd að staða Lífeyrissjóðs sjómanna er auðvitað mjög sérstök og það er engin furða þó að um hann gildi sérlög. Ég held reyndar að hugmyndir um að fella þau úr gildi og fella Lífeyrissjóð sjómanna undir almennu löggjöfina séu ekki tímabærar, fyrst og fremst vegna þess að um Lífeyrissjóð sjómanna gilda að mörgu leyti svo sérstakar aðstæður.

Það er líka ljóst að opinberir aðilar bera mjög mikla ábyrgð á stöðu Lífeyrissjóðs sjómanna. Það helgast af því að snemma voru sett um hann sérlög og stjórnvöld hafa beitt sér fyrir eða átt aðild að aðgerðum sem hafa umtalsverð áhrif á afkomu sjóðsins. Um þetta er í raun ekki deilt. Aðkoma ríkisins er enn fremur viðurkennd í fordæmum frá liðnum árum þar sem Lífeyrissjóði sjómanna hafa verið lagðir til fjármunir, t.d. við uppskipti á sjóðum eða eignarhald á fyrirtækjum sem eiga sér opinberan bakgrunn.

Stjórnvöld bera þar af leiðandi, herra forseti, umtalsverða ábyrgð á stöðu þessa sjóðs, einkum og sér í lagi með því að auka þar réttindin eins og hér hefur verið farið yfir og færa lífeyristökualdurinn eða möguleika á lífeyristöku niður í 60 ár sem ég vil reyndar meina að full þörf sé á og mjög slæmt ef menn hörfa undan með það. Í mínum huga eru lífeyrisréttindi sjómanna og staða Lífeyrissjóðs sjómanna í raun nátengd til að mynda hlut eins og sjómannafrádrættinum sem varða almenna umgjörð og rammann um kjör þessarar stéttar sem mjög mikil sérstaða er um að mörgu leyti.

Ég hlýt líka, herra forseti, að harma það mjög ef til þess verður að koma að skerða réttindi með þeim hætti sem hér á að gera. Sérstaklega verð ég að segja að mér finnst dapurlegt að sjá hér lagða til 13,4% skerðingu á örorkubótum til sjómanna. Sjómannastéttin er sú stétt sem býr við tíðust slys allra vinnandi stétta í landinu og oft fylgir þeim slysum umtalsverð örorka. Það eru iðulega menn á besta aldri sem þannig missa starfsorku sína og eru í einni svipan rændir því, jafnvel fyrir lífstíð, að geta sinnt starfi sínu og aflað sér og fjölskyldu sinni tekna. Það hlýtur því að þurfa mikla nauð til að fara út í það að skerða jafnvel örorkulífeyrinn eins og hér er lagt til. Það kann vel að vera að þess verði ekki kostur að raska því innbyrðis samræmi sem þarna er milli ellilífeyris, makalífeyris og örorkulífeyris. En ég verð þó að segja að mér hefði fundist í þessu tilviki að skoða bæri örorkulífeyrinn alveg sérstaklega.

Ég er heldur ekki viss um það, herra forseti, að stjórnvöld séu að öllu leyti með allt sitt á þurru gagnvart því að skilja sjóðinn eftir í þeirri stöðu sem raun ber vitni og það kann vel að fara svo að á það verði látið reyna hver ábyrgð stjórnvalda á afkomu hans er. Ég er ekkert viss um að ríkið hafi þar jafnhreint borð eða sé jafnöruggt með sinn hlut í þeim efnum eins og ætla mætti, m.a. af umsögn frá fjmrn. um frv.

Ég áskil mér allan rétt til þess, herra forseti, að taka það upp bæði í þinginu á síðari stigum og eins í hv. þingnefnd að farið verði yfir það á nýjan leik í ljósi allra fyrirliggjandi gagna hver ábyrgð ríkisvaldsins er á fjárhagsstöðu Lífeyrissjóðs sjómanna og tekinn í það sá tími sem til þarf að skoða það nokkuð rækilega. Ég held að það sé skylt, og jafnvel burt séð frá því hver yrði niðurstaðan um hina lögformlegu ábyrgð í þessu sambandi þá kynnum við að hafa einhverjar pólitískar meiningar um hvað væri rétt og sanngjarnt að gera í þessu tilviki. Ég teldi það ekki eftir þó að beitt yrði einhverjum sértækum ráðstöfunum til að styrkja fjárhagsstöðu Lífeyrissjóðs sjómanna, ég teldi það ekki eftir og skal forsvara þær sértæku aðgerðir hvar sem er og hvenær sem er.

Ég hefði gjarnan viljað að menn leituðu leiða, ef ekki að styrkja Lífeyrissjóð sjómanna með beinum fjárframlögum úr ríkissjóði, þá að skoða möguleikana á að koma Lífeyrissjóði sjómanna upp tekjustofni þótt tímabundinn væri, sem kæmi inn í það að styrkja fjárhagsstöðuna þannig að ekki þyrfti að grípa til þessarar umtalsverðu skerðingar á réttindum sem nú á að fara að gera.

Ég kann ekki nákvæmlega að rekja eftir minni svo öruggt sé þau fordæmi sem fyrir liggja og hafa auðvitað verið ákveðin rök fyrir á sínum tíma þegar Lífeyrissjóður sjómanna fékk fjármuni í uppskiptum á ýmsu góssi á liðinni tíð. En ég held ég fari rétt með t.d. þegar Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins var gerður upp, þá hafi Lífeyrissjóður sjómanna fengið út úr honum, og fyrir því voru þau rök að kannski hefðu komið inngreiðslur inn í sjóðinn sem tengdust hlut sjómanna í gegnum skiptakjörin. Nýlegt dæmi er þegar sjútvn. Alþingis tók sig til og breytti stjfrv. um síldarútvegsnefnd þannig að lífeyrissjóðum sjómanna og þeim lífeyrissjóðum sem sjómenn hafa greitt í var afhentur tiltekinn eignarhlutur í því fyrirtæki með þeim rökum að færa mætti annars vegar rök fyrir því að það hefði áhrif á skiptakjörin gegnum tíðina að lagt var inn í þetta félag og þar hafði myndast eign, en hins vegar með þeim rökum að gott væri að grípa tækifærið og styrkja sjóðinn og það væri fullkomlega réttlætanlegt að gera það þegar skipt væri upp opinberum verðmætum eða verðmætum sem myndast hefðu í skjóli hins opinbera, eins og síldarútvegsnefnd var auðvitað. Ég vísa til þessara fordæma.

Ég nefni sem möguleika að farið yrði yfir það hvort Lífeyrissjóður sjómanna geti fengið þó síðar verði hlutdeild í tekjustofni af því tagi t.d. sem þróunarsjóðsgjöldin eru, sem eru tímabundin samkvæmt núverandi löggjöf, þannig að á komandi árum megi reikna með því að hagur sjóðsins vænkist eitthvað vegna þess að hann fái hlutdeild í tekjum af því tagi sem eiga rót sína að rekja til sjávarútvegsins. Mér finnst skylt að fara yfir málið með þeim hætti og æskilegast væri að reyna að ná um það samkomulagi, annars vegar í þinginu og milli stjórnvalda og hins vegar við sjómenn og sjávarútveginn að sjálfsögðu. Það er einnig málefni sjávarútvegsins alls að um þessi mál geti verið sæmilegur friður því ef það er ekki og ef sjómenn eru bersýnilega ósáttir við sinn hlut í þessum efnum, einnig hvað varðar lífeyrisréttindi, þá hlýtur það auðvitað að leita inn í samskipti þeirra og kröfugerð gagnvart vinnuveitendum sínum og jafnvel ríkisvaldinu. Sjómenn hafa sýnt það á undangengnum árum og eru ekkert ólíklegir til að sýna það aftur að þeir eru alveg menn til að berjast fyrir hagsmunum sínum ef út í það er farið. Ég held því að það sé hyggilegt, herra forseti, að fara rækilega yfir þetta mál með því hugarfari að reyna að leita að samstöðu um hvort hægt er að ná fram breytingum sem a.m.k. duga til að milda þá skerðingu sem þarna er fyrirhuguð og gera menn betur sátta við sinn hlut, þá sem við eiga að búa.