Ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 20:53:25 (2084)

1998-12-10 20:53:25# 123. lþ. 37.12 fundur 336. mál: #A ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði# (réttur til styrkja) frv. 143/1998, menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[20:53]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Frv. sem hér er flutt miðar að því að samræma reglur um úthlutun á styrkjum til að jafna fjárhagslegan aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum úthlutunarreglum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Fyrr á þessu þingi hafa tveir hv. þm., þau Svanfríður Jónasdóttir og Lúðvík Bergvinsson, flutt frv. sem lýtur að sama markmiði og er það nú til meðferðar í hv. menntmn. Er það von mín að góð samstaða takist um þetta mál og að það takist að afgreiða það samhliða því sem Alþingi samþykkir fjárlög fyrir árið 1999, en fjmrn. áætlar að kostnaður við að hrinda frv. í framkvæmd sé 24 millj. kr. og hefur meiri hluti hv. fjárln. tekið tillit til þess mats í tillögum sínum til Alþingis sem verða teknar fyrir við 2. umr. fjárlaga.

Styrkir til jöfnunar á námskostnaði grundvallast á lögum nr. 23/1989, um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði. Samkvæmt lögunum eiga þeir rétt á styrk sem stunda reglubundið framhaldsnám hér á landi og verða að vista sig utan lögheimilis og fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins, enda sé ekki unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili eða öðrum dvalarstað sem námsstyrkjanefnd metur jafngildan. Samkvæmt gildandi lögum njóta þeir ekki styrks sem eiga rétt til lána úr Lánasjóði ísl. námsmanna eða njóta hliðstæðrar fyrirgreiðslu. Þetta frv. miðar að því að samræma úthlutunarreglur lánasjóðsins þessum lögum frá 1989.

Fyrir skömmu var dreift á Alþingi skýrslu minni um framfærslukostnað og lögheimilisflutninga íslenskra námsmanna. Í inngangi skýrslunnar fylgi ég henni úr hlaði með þessum orðum, með leyfi forseta:

,,Eitt af megineinkennum íslenska skólakerfisins er að hér hefur ríkt meira jafnrétti til náms en víða annars staðar, hvort sem litið er til kynferðis, efnahags, búsetu eða annarra þátta. Liður í þessari stefnu er úthlutun dreifbýlisstyrkja til nemenda af landsbyggðinni sem sækja nám fjarri heimabyggð. Á árabilinu 1988--97 var varið um 900 millj. kr. í þessum tilgangi en fjárveitingin hefur hækkað jafnt og þétt frá 1990. Í fjárlagafrumvarpi ársins 1999 er gert ráð fyrir að rúmlega 163 millj. kr. verði varið til jöfnunar á námskostnaði.

Ýmsar tækninýjungar hafa enn aukið jafnrétti til náms hér á landi. Má þar fyrst og fremst nefna upplýsingatæknina en með henni hefur fjarnám eflst mjög verulega. Tæknin bætir ekki síst hag nemenda sem búa fjarri þéttbýli og þeirra geta ekki sótt hefðbundna skóla, til dæmis vegna fötlunar.

Skýrsla þessi er unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í samræmi við ályktun sem Alþingi samþykkti í febrúar 1995. Með henni var menntamálaráðherra falið að láta gera úttekt á kjörum og stöðu námsmanna er stunda nám fjarri heimabyggð. Niðurstöður skýrslunnar sýna m.a. að viðbótarkostnaður við að hafa nemanda á framhaldsskólastigi eða háskólastigi í skóla fjarri heimabyggð er á bilinu 130--375 þús. kr. að teknu tilliti til dreifbýlisstyrks. Einnig kemur fram að lítill munur er á upphæðum lána eða tíðni lántöku hjá lánþegum LÍN eftir búsetu. Sú niðurstaða bendir til þess að ekki sé teljandi munur á lánsfjárþörf nemenda í sérskólum og háskólum eftir búsetu.``

Þetta eru inngangsorð þessarar skýrslu, herra forseti.

Ég vil geta þess að fjárveitingar til jöfnunar á námskostnaði og til skipulags skólaaksturs á framhaldsskólastigi eru nú í fjárlögum 1998 191 millj. kr. og samkvæmt frv. til fjárlaga 1999 er gert ráð fyrir 194,8 millj. kr. til þessa málaflokks, en til samanburðar voru fjárveitingar árið 1996 alls 111,5 millj. kr. Verði þetta frv. að lögum, herra forseti, sem hér er kynnt, þá mun þessi fjárhæð hækka um 24--25 millj. kr.

Komið hefur fram í umræðum um byggðamál að fátt sé mikilvægara en að stuðla að því að sem flestir geti stundað skólanám í sinni heimabyggð hvort heldur grunnskólanám, framhaldsskólanám eða háskólanám og það er einnig ljóst af tillögum hv. meiri hluta fjárln. að hann leggur mikla áherslu á það í sinni tillögugerð að stuðlað verði að aukinni símenntun og endurmenntun um landsbyggðina alla og komið þannig til móts við þau sjónarmið sem fram hafa komið í umræðum um byggðamálin að efla beri menntun og leiðir fólks til að afla sér menntunar um landið allt.

Í núgildandi lögum um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði sem sett voru árið 1989 er kveðið á um að þeir sem eiga rétt á láni úr Lánasjóði íslenskra námsmanna skuli ekki njóta styrks. Á undanförnum árum hefur þróunin orðið sú að úthlutunarreglur lánasjóðsins hafa verið rýmkaðar á ýmsan hátt, m.a. hafa aldursmörk tengd sérnámi til starfsréttinda verið afnumin úr úthlutunarreglum sjóðsins, þannig að fleiri nemendur í framhaldsskólum eiga rétt til lána en áður var. Sá hópur sem ekki nýtur styrks samkvæmt lögum um jöfnun á námskostnaði hefur því stækkað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis.

Óeðlilegt þykir að réttur til láns úr Lánasjóði íslenskra námsmanna girði fyrir að nemendur á framhaldsskólastigi geti átt kost á þeim námsstyrkjum sem veittir eru til þess að jafna kostnað við nám sem óhjákvæmilegt er að stunda fjarri lögheimili og fjölskyldu. Tilgangur frumvarps þessa er að bæta stöðu nemenda í framhaldsskólum að þessu leyti.

Í ljós hefur komið að allmargir nemendur kjósa að nota ekki lánsréttinn hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og ekki þykir rétt að synja þeim um styrk af þeirri ástæðu. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að nemendur geti valið milli námsaðstoðar lánasjóðsins og styrks til jöfnunar á námskostnaði.

Frumvarpið felur með öðrum orðum í sér að framhaldsskólanemendur sem stunda sérnám til starfsréttinda fjarri lögheimili og fjölskyldu geti valið milli styrks til jöfnunar á námskostnaði og námsaðstoðar Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að veita árlega jöfnunarstyrk til um 360 nemenda í starfsréttindanámi til viðbótar við þá sem til þessa hafa fengið styrk eða nýtt rétt sinn til að taka lán hjá lánasjóðnum. Miðað við óbreytta meðalfjárhæð er áætlað að styrkur til þessa nýja hóps nemi samtals um 24 millj. kr.

Þetta frv. snýst um að stækka hópinn sem getur nýtt sér dreifbýlisstyrk til náms í framhaldsskóla. Ákvörðun um að minnka viðbótarkostnaðinn við að hafa nemanda á framhaldsskólastigi verður hins vegar ekki tekin til afgreiðslu með þessu lagafrv. heldur við afgreiðslu fjárlagafrv.

Ég legg frv. fram og óska eftir að því verði vísað 2. umr. og til meðferðar í hv. menntmn. eftir að þessari umræðu lýkur.