Málefni fatlaðra

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 10:34:18 (2090)

1998-12-11 10:34:18# 123. lþ. 38.5 fundur 331. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 156/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[10:34]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum um málefni fatlaðra sem felur í sér frestun á því að færa þennan málaflokk yfir til sveitarfélaganna. Ég hygg að almenn samstaða sé um að rétt og eðlilegt sé að þessi málaflokkur sé hjá sveitarfélögunum. Forsenda þess að það gangi upp og við séum að færa málin til betri vegar með því að flytja þau til sveitarfélaganna er að málaflokknum fylgi nauðsynlegir tekjustofnar. Vanda þarf til verka við þennan flutning svo að við getum vænst þess að þjónustan við fatlaða verði betri við þá breytingu.

Ég hefði talið mikilvægt, þegar ráðherrann er að biðja um lagabreytingu til þess að fresta þessum tilflutningi, að við hefðum getað fengið betri sýn yfir stöðuna en fram kom í máli hæstv. ráðherra þegar hann mælti fyrir þessu frv. Eins og ráðherrann greindi frá og kemur reyndar fram í þessu frv. þarf að breyta þrennum lögum, það þarf náttúrlega ný lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem mér heyrðist á hæstv. ráðherra að væru svo til tilbúin og síðan að breyta lögum um tekjustofna sveitarfélaga og sérstök lög um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Mér er kunnugt um það og auðvitað er nauðsynlegt að fram fari úttekt á stöðunni í þessu málaflokki og hve mikið fjármagn þarf að flytja frá ríki til sveitarfélaga við þessa breytingu. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvað líði þessari fjárhagslegu úttekt sem var verið að gera, hvort hann hafi upplýsingar um stöðuna að því er varðar þörf fyrir þjónustuúrræði og biðlista. Ég held að mjög nauðsynlegt sé að þingið geri sér grein fyrir því um leið og ráðherra fær þessa heimild hver staðan er eins og málið stendur nú.

Ég hef upplýsingar um, staðan virðist vera sú, og ég spyr hæstv. ráðherra hvort rétt sé að 777 fatlaðir einstaklingar bíði eftir þjónustuúrræðum á landinu öllu. Eftir því sem mér skilst er um það marga að ræða að búsetuúrræði vanti og á biðlistum bíði mjög margir eftir búsetuúrræðum. Í Reykjavík eru á biðlista um 380 og á Reykjanesi bíða 276 á öðrum stöðum á landinu bíða alls 277.

Það sem vakti athygli mína þegar ég leitaði upplýsinga um þessa stöðu var að 188 fatlaðir einstaklingar bíða eftir félagslegum íbúðum. Það eru náttúrlega miklu fleiri en ég gerði mér nokkurn tíma grein fyrir. Það er alveg ljóst að það er ámælisvert og sýnir þróunina í þessum málaflokki að fatlaðir skuli ekki geta nýtt sér að verulegu leyti félagslegar íbúðir og þurfi ekki að vera háðir sambýlum eða öðrum búsetuformum.

Ég hygg að varla sé hægt að vænta þess að þessir fötluðu einstaklingar fái á næstunni félagslegar íbúðir vegna þess að á landinu öllu á að veita fjármagn í 120 slíkar á næsta ári til sveitarfélaga og félagasamtaka. Hér er greinilega þörf fyrir 188 félagslegar íbúðir fyrir fatlaða. Þetta eru þær upplýsingar sem ég hef, upplýsingar sem ég tel að ráðherra ætti að gefa okkur við þessa umræðu ef hann á annað borð hefur þær. Hæstv. ráðherra hefði átt að gefa okkur vitneskju um stöðuna í þessum málum við þessa umræðu.

Athugasemdir mínar lúta að því að ráðherrann upplýsi okkur um stöðuna, þ.e. hvað biðlistar eru langir, hve margir bíði og hvort hann getur staðfest tölurnar sem ég er hef, hvort það liggi fyrir grófar upplýsingar um hvað kosti að leysa úr þeirri þörf sem nú er. Það gefur okkur þá einhverjar hugmyndir um hve mikið þurfi að flytja af fjármagni frá ríki yfir til sveitarfélaga þegar þetta verður að veruleika.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra að því þegar hann talar um að beiðni hafi borist frá borgarstjórninni í Reykjavík um að fresta yfirfærslunni hver hafi verið ástæðan þeirrar frestunar. Hæstv. ráðherra nefndi að Reykjavíkurborg væri vanbúin til að taka við málaflokknum. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er það ekki fyrst og fremst það að lagabreytingar eru ekki tilbúnar að sú fjárhagslega úttekt sem þarf að liggja fyrir er ekki fengin og sé ekki fengin niðurstaða milli sveitarfélaganna og ríkisins um tilfærslu á fjármagni yfir til sveitarfélaganna við þennan tilflutning? Ég spyr hvort það sé ekki hin raunverulega ástæða þegar ráðherra nefnir að Reykjavíkurborg sé vanbúin að taka við málaflokknum. Mér finnst að í þeim orðum felist að raunverulega standi upp á sveitarfélögin að taka við þessum málaflokki en ekki að ríkisvaldið standi við sinn hlut í þessu máli. Ég hygg að það standi miklu frekar upp á það.

Ég get ímyndað mér að sveitarfélögunum sé kannski nokkuð órótt að taka við þessum málaflokki eins og staðan er nú, sérstaklega þegar við erum að fara að ræða fjárlögin við 2. umr. Þar er um að ræða verulega skerðingu á Framkvæmdarsjóði fatlaðra, um 250 millj. eða einhvers staðar þar um kring ef ég man rétt. Mér finnst að hæstv. ráðherra þurfi að skýra þetta nokkru nánar en hann gerði við framsögu málsins.

Í lokin vil ég spyrja hæstv. ráðherra út í það að í fyrri lögum var fest niður ákveðin dagsetning, hvenær tilfærslan ætti að vera, þ.e. 1. jan. 1999. Nú biður ráðherrann um opna heimild til að tímasetja tilfærsluna. Ég hefði talið eðlilegt að sett væri niður ákveðin dagsetning til þess að halda ríkisvaldi og sveitarfélögum við efnið en þetta væri ekki skilið eftir opið. Ég hefði talið eðlilegt að sett yrði niður dagsetning eins og 1. jan. árið 2000. Mér finnst ekki nógu gott að skilja þetta eftir alveg opið eins og hér á að gera.

Ég vil í lokin segja, herra forseti, að eins og staðan er sé ég ekki annað en nauðsynlegt sé að styðja þá lagabreytingu sem hæstv. ráðherra leggur til en finnst vanta töluvert mikið upp á að hæstv. ráðherra upplýsi þingið betur um stöðuna eins og hún er nákvæmlega þessa stundina þegar hann biður um þessa lagabreytingu.