Málefni fatlaðra

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 10:42:49 (2091)

1998-12-11 10:42:49# 123. lþ. 38.5 fundur 331. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 156/1998, KPál
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[10:42]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Mér finnst sjálfsagt að verða við ósk hæstv. félmrh. um að fresta yfirtöku málefna fatlaðra til sveitarfélaganna sem borin er fram af borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík en lýsi jafnframt vonbrigðum mínum með að sveitarfélögin og Reykjavíkurborg skuli ekki treysta sér til að taka við þeim verkefnum sem áformað var að færu til þeirra strax eftir að sveitarfélögin tækju við grunnskólanum. Ég lýsi vonbrigðum mínum, sérstaklega vegna þess að þetta mál var mjög lengi í undirbúningi og bæði samtök fatlaðra, svæðisstjórnir og þeir sem sinna þessum málaflokki hafa verið að undirbúa yfirtökuna og yfirfærsluna í lengri tíma og kannski beðið með ýmsar úrlausnir þar til sveitarfélögin kæmu að málinu.

Kannski verður að sýna því skilning að sveitarfélögin séu enn í hálfgerðum sárum eftir yfirtöku grunnskólans og hafi á sínum tíma ekki áttað sig á umfangi þess verkefnis. Sveitarfélög eins og Reykjavíkurborg hefðu samt átt að geta áttað sig betur á því en nokkrir aðrir sem að þessum málaflokki standa. Eftir því sem manni sýnist hefur Reykjavík, eitt af örfáum sveitarfélögum á landinu, farið út í að hækka skatta og millifæra fjármuni frá fyrirtækjum borgarinnar til að geta staðið undir lögbundnum verkefnum sem þau í meiri hlutanum hafa undirgengist að taka að sér. Þetta er að sjálfsögðu áfellisdómur yfir störfum R-listans í Reykjavík og er slæmt til þess að vita að grípa þurfi til svo erfiðra ákvarðana og draga úr þeim krafti og þeirri uppbyggingu sem menn vonuðust til að kæmi inn í starf fatlaðra með yfirtöku sveitarfélaganna.

Við vitum það, og það kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að mörg verkefni bíða úrlausnar hjá fötluðum og húsnæðismál þeirra hafa því miður ekki þróast þannig að hægt sé að sinna brýnustu þörfum. Ég þekki það úr kjördæmi mínu að mjög mikið af fötluðu fólki fær ekki úrlausnir eins og gert er ráð fyrir samkvæmt lögum og beðið er með mjög fatlaða einstaklinga á heimilum sem þurfa svo sannarlega á langtímaúrræðum að halda. Það hefur reynst fjölskyldum mjög erfitt til úrlausnar. Ég mundi segja, herra forseti, að væri mjög vanhugsað að ætla sér að ákveða þessa nýju dagsetningu 1. jan. 2000. Það er alveg ljóst að sveitarfélögin þurfa mun lengri tíma til að fara yfir þessi mál og átta sig á því hvort þau geti í rauninni tekið yfir þennan málaflokk.

Mér hefur heyrst, eftir síðustu fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna, að þeim finnist nóg komið af verkum til sveitarfélaganna í bili. Reykjavík hefur gengist fyrir því og verið í forustu fyrir að óska hreinlega eftir því að þessi yfirtaka fari ekki fram. Reykjavík sem er náttúrlega langstærsti aðilinn að þessu verkefni hlýtur að hafa gert sér grein fyrir því að það var ekki spurning um einhverja daga eða vikur. Þetta hlýtur að vera spurning um einhver ár og jafnframt spurning um hvort af þessu verði.

Ég held að nauðsynlegt sé að eyða þessari óvissu. Óvissan er verst og uppbyggingin bíður. Hana má ekki tefja með einhverjum bráðabirgðalausnum og ég mundi segja að það væri hárrétt ákvörðun hjá hæstv. félmrh. að hafa heimildina opna og gera ráð fyrir að nokkur ár liðu þangað til þessi yfirtaka ætti sér stað.