Málefni fatlaðra

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 10:48:00 (2092)

1998-12-11 10:48:00# 123. lþ. 38.5 fundur 331. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 156/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[10:48]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki hægt annað en mótmæla þessum málflutningi talsmanna Sjálfstfl. í hverju málinu á fætur öðru sem kemur fyrir á Alþingi. Ef á einhvern hátt er hægt að koma höggi á meiri hlutann í Reykjavík þá er allt tínt til og dregið inn í umræðuna eins og við heyrðum á máli hv. þm. Kristjáns Pálssonar áðan. Það þykir t.d. sérstök ósvífni af Reykjavíkurborg að nýta, þó ekki til fulls, útsvarsprósentuna sem sveitarfélögum er heimilt að leggja á. Það er t.d. aldrei minnst á að Vestmanneyingar hækkuðu útsvarið um svipað leyti. Og hverjir fara með völdin þar? Eru það ekki flokksbræður hv. þm.? Nei, það er allt í lagi. En ef það er gert í Reykjavík þá ætlar allt vitlaust að verða af því að hér situr vinstri meiri hluti.

Hver ætli útsvarsprósentan sé í Reykjanesbæ? Hver ætli hún hafi verið í Njarðvíkunum þegar hv. þm. fór með völdin þar? Ég held að við ættum þá að fara betur yfir þessi mál og ofan í saumana á því hvernig þessir hlutir standa. Að ætla að fara að kenna þessu um að málefni fatlaðra skuli ekki vera nógu vel á vegi stödd sem slík. Mér þykir nú hv. þm. vera farinn að höggva ansi nærri sér. Hvað hefur ríkisstjórnin sem hv. þm. hefur stutt gert í málefnum fatlaðra sl. sjö ár? Hvernig hefur verið farið með Framkvæmdasjóð fatlaðra? Við skulum fara aðeins yfir það í umræðu um fjárlögin á eftir, herra forseti, ef menn vilja hefja þann leik. Ég er á mælendaskrá og ætla að fagna því (Gripið fram í.) að hæstv. félmrh. horfist í augu við veruleikann og ákveði að fresta þessari yfirfærslu, enda er hún á allan hátt ótímabær og ekki þannig undirbyggð að hægt sé að láta af henni verða núna. Sá málflutningur að ætla að kenna þessu um stöðuna í málefnum fatlaðra að öðru leyti er gjörsamlega út í loftið og hittir hv. þm. sjálfan fyrir.