Málefni fatlaðra

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 10:50:01 (2093)

1998-12-11 10:50:01# 123. lþ. 38.5 fundur 331. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 156/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[10:50]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get upplýst hv. þm. Steingrím J. Sigfússon um að útsvarið í Reykjanesbæ er lægra en í Reykjavík. Það er 11,75% (SJS: Hvar?) Í Reykjanesbæ. En ef ég man rétt þá er það 11,99 í Reykjavík. Ef við miðum þetta tvennt saman þá er þessi samanburður mun hagstæðari fyrir Reykjanesbæ en Reykjavík, þetta stóra og mikla sveitarfélag sem neyðst hefur til þess að taka af eigin fé Hitaveitu Reykjavíkur til þess að geta staðið undir eðlilegum rekstri sveitarfélagsins.

Reykjanesbær og sveitarfélögin á Suðurnesjum eiga Hitaveitu Suðurnesja sem hefur frá upphafi verið rekið mjög sjálfstætt og sveitarfélögin sem slík hafa ekki tekið fjármuni beinlínis úr þeim rekstri. En Reykjavíkurborg hefur, reyndar í áraraðir, tekið peninga út úr rekstri Hitaveitunnar til að standa undir eðlilegum rekstri Reykjavíkurborgar. Undir stjórn Reykjavíkurlistans hefur þetta keyrt um þverbak þar sem ekki er nóg með að þeir taki hærri upphæðir en nokkurn tíma fyrr út úr rekstrinum heldur er fyrirtækið þar að auki skuldsett upp á milljarða.

Brotlending R-listans í þessu máli, sérstaklega eftir kosningarnar, er því mjög athyglisverð og eðlilegt í ljósi þess að þeir treysti sér ekki til að taka við nýjum málaflokkum til borgarinnar. Ég held að þetta hitti engan annan fyrir en vinstri meiri hlutann sjálfan í Reykjavík. Honum hefur því miður mistekist flest það sem hann lofaði á sínum tíma, eins og t.d. að ná tökum á fjármálunum. (SvG: Var þetta um málefni fatlaðra?)